Vinsælustu rithöfundar í heimi

Í framhaldi af alþjóðadegi kvenna þann 8. mars síðastliðinn hefur staða kvenna í heiminum og jafnrétti kynjanna verið okkur tíðrætt. Við þekkjum mætavel að í þessu samhengi er Ísland til mikillar fyrirmyndar. Til mestrar fyrirmyndar tel ég þó vera þá staðreynd að þvert á flokka, stétt og stöðu virðast allir hér á landi vera sammála um að enn þurfi að gera betur. Öðru máli gegnir um hinn stóra heim.

Einn er þó sá listi í hinum stóra heimi sem er ólíkur flestum öðrum, þegar kemur að hlut kvenna. Á lista Wikipedia[1] yfir mest seldu rithöfunda í heimi, þ.e. þá rithöfunda sem selt hafa flestar skáldsögur (allra tíma og á hvaða tungumáli sem er) eru 4 konur meðal 10 efstu. Sé litið á fimm mestu seldu rithöfunda heims eru þrjár konur þar á meðal. Þær Agatha Christie, Barbara Cartland og Danielle Steel fylgja nefnilega fast á hæla Shakespeare, sem er eini karlinn sem slær þessu kvennaveldi við í vinsældum.

Meðal núlifandi rithöfunda er hlutur kvenna enn betri, en þar er Danielle Steel sú sem selt hefur flestar bækur í heimi og í fótspor hennar fylgja þær J.K. Rowling og Jackie Collins.

Það má sjálfsagt draga af því ýmsar ályktanir og kasta fram misgáfulegum getgátum um hví konur eiga hvílíkum framgangi að fagna á þessum lista en ekki öðrum. Ég læt nægja að benda á að máttur orðsins er mikill og að mestu seldu rithöfundar í heimi hljóti að vera jafnframt meðal áhrifamestu manneskja í heimi. Þá er vert að minna á að strax á næsta ári, að afloknum forsetakosningum í Bandaríkjunum, megum við eiga von á að tvær valdamestu manneskjur í heimi verði einnig konur, þær Hillary Clinton og Angela Merkel.

 

[1] Sel það ekki dýrara en ég keypti

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.