Ameríkanar eru undarlegt mengi manna. Á sama tíma og þeir upp til hópa heimta aftökur í miðaldastíl, þola þeir ekki að heyra orðið typpi í sjónvarpi. Samt eru þeir svo barnalega einlægir í þessari yfirborðskenndu siðsemi sinni, að manni líður hálf níðingslega að vera með þessa gagnrýni. Það er hins vegar ofur eðlilegt að velta sér upp úr menningu Ameríkana, því okkar tíma verður minnst fyrir alheimsáhrif hennar – hvað sem líður öllu röfli í frönskum menningaröfuguggum.
Evrópubúar, og þá sérstaklega Frakkar, eru ósparir í gagnrýni sinni á ameríska menningu og þjóðarþel nýlendubúanna. DEIGLAN minnist í því samhengi samtals í Suður-Frakklandi fyrir nokkrum árum. Þá hellti ung frönsk stúlka sér yfir dæmigerðan, ofureinlægan en þó yfirborðskenndan Ameríkana og fann honum og þjóð hans flest til foráttu. Samkvæmið rak í rogastans en öllum á óvart brást nýlendubúinn ekki svo illa við þessu, heldur hallaði sér að stúlkunni og sagði undurblitt: „Það má vel vera að við séum hallærislegir, en ef Ameríkana nyti ekki við, þá værir þú líklega að troða baunum í dós í þýskri niðursuðuverksmiðju,“ og lengra varð það samtal ekki.
DEIGLAN ætlar þó ekki taka sér það ómögulega hlutverk að verja bandaríska menningu eða þjóðarsál. Það er mjög skrýtið að hlusta á Dan Rather segja fréttir á NBC af sex ára dreng sem skaut bekkjarsystur sína til bana í skólanum, og síðar á sömu stoð heyra orðið typpi klippt úr viðtali Jays Lenos við ónefndan leikara. Af hverju má ekki segja þetta tiltekna orð í Tonight Show? Væntanlega vegna þess, að slíkt gæti haft slæm áhrif á viðkvæmt velsæmistaugakerfi meðaljónsins í Ameríku. Þjóðin sem fylgist með ofbeldi og drápum, raunverulegum og leiknum, í sjónvarpi á hverju kvöldi, færi nefnilega alveg í keng ef slíku orði væri skellt framan í hana. Typpi…
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021