Umræðan um 3. orkupakkann hefur opinberað nýjar línur í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Fyrrverandi mótherjar úr stjórnmálunum hafa fundið sameiginlegt baráttumál þvert á gamlan hugmyndafræðilegan ágreining. Í þessu máli virðist sem landsmenn skipi sér í tvo hópa alþjóðlegs frjálslyndis annars vegar og þjóðernisíhalds hins vegar.
Það kemur ekki á óvart að klassískir vinstri menn séu á móti opnum mörkuðum og frjálsum viðskiptum. Hins vegar kemur spánskt fyrir sjónir að fólk sem maður ætlar að hampi frjálsum viðskiptum taki varðstöðu gegn því að Ísland tengist alþjóðamörkuðum.
En kannski eru þetta nýjar víglínur sem snúast meira um einangrunarstefnu eða opið hagkerfi. Ágreiningur sem hefur komið upp víða annars staðar í heiminum. Á milli þeirra sem trúa því að við getum allt best sjálf án samstarfs við aðrar þjóðir gegn þeim sem vilja njóta ótvíræðs ávinnings af alþjóðasamstarfi og þátttöku á heimsmörkuðum.
Fullveldið og orkupakkinn.
Við Íslendingar eigum töluvert undir því komið að taka þátt í milliríkjasamningum. Eins og lögfræðingar hafa bent á er mikilvægur þáttur í fullveldi okkar að taka þátt í slíku samstarfi og styrkir það fullyrðinguna um að við höfum ákvörðunarrétt yfir eigin málefnum. Þannig má t.d. benda á að án varnarsamnings og þeirra skuldbindinga sem við höfum tekið á okkur samhliða honum værum við berskjölduð fyrir erlendum afskiptum. Fullveldinu myndi stafa raunveruleg ógn af því. Jafnframt væri almenn samningsstaða okkar sem örþjóðar án slíks samnings töluvert verri en hún er í dag.
Þessu er eins farið með t.d. alþjóðaviðskipti. EES-samningurinn er mikilvæg leið til þess að tengjast heimsmörkuðum enda gefur hann okkur meira vægi í viðskiptum en fólksfjöldi á Íslandi gefur tilefni til. Með honum tengjumst markaðssvæði sem telur um um 513 milljón íbúa sem skiptir sköpum fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki og í raun almenning allan. Þar njótum við fulltingis stærri þjóða s.s. Noregs sem fer til samstarfs við okkur í trausti þess að við metum skuldbindingar samningsins í ljósi þeirra hagsmuna sem í honum felst. Því væri höfnun orkupakkans verulegt brot á því trausti og gefur ekki góð fyrirheit um framhald þess samstarfs. Ekki síst í því ljósi að heilt yfir njótum við ávinnings af orkupökkunum án þess að taka á okkur ríkar skuldbindingar
Þó svo að átök um 3. orkupakkann hafi verið áberandi síðustu vikurnar er þetta ekki mál sem víðtækar deilur ættu að skapast um. Því er kannski skiljanlegt að flestir Íslendingar veiti því litla athygli. Eins og almennt má segja um EES-samninginn er um að ræða mál sem kemur neytendum til góða og leggur grunninn að eðlilegu markaðshagkerfi. Því læðist að manni sá grunur að eitthvað meira liggi að baki baráttu andstæðinga pakkans en óraunsæ hræðsla við sæstreng.
Að lokatakmarkið sé að Ísland gangi úr EES-samstarfinu sem yrði stórmál fyrir okkur öll.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021