Jú, það er líklega gott mál að það sé búið að setja upp kerfi sem flokkar válynd veður eftir litum, eins og hryðjuverkaógnina í Bandaríkjunum. Þetta er eðlileg þróun eftir að barnaveðurspáin var sett af stað, sem gerði börnum og foreldrum kleift að hætta að pexa um hvort það væri úlpuveður eða peysuveður. Mennirnir og konurnar í sjónvarpinu tóku ómakið einfaldlega af þjóðinni. Einhvers konar yfirvald, jafnvel krúttlegt yfirvald eins og Siggi stormur, úrskurðaði í nafni sérþekkingar sinnar um þessi mál fyrir fjölskyldur landsins.
Og litakóðunin hjálpar eflaust útlendingum að skilja það þegar línurnar á kortunum og tölurnar þýða eitthvað sem hefur raunveruleg áhrif. Það er jafnvel ekki útilokað að hjá einhverjum Íslendingum hafi breytingin úr vindstigum yfir í metra á sekúndu hjálpað til að setja hlutina í skiljanlegt samhengi. Það var að minnsta kosti alltaf aðeins ruglandi fyrir mig að vita að „rok“ væri meiri vindur en „stormur“ og að „hvassviðri“ væri meira en „allhvasst“, en bæði auðvitað minna en „ofsaveður“, sem þó er skárra en „fárviðri.“
Í fárviðri lýkur skalanum. Veðurhæðin getur ekki orðið meiri, þannig að þegar Ási í Bæ orti „þótt á Höfðanum þjóti ein þrettán stig, ég þrái heimaslóð“ þá var hann basically bara að bulla. Þréttán stig er ekki hægt, það er í tólf stigum sem öldurnar fara úr því að vera „gríðarlega stórar“ (11 vindstig) í „risastórar“.
Hið mikla flækjustig veðurlýsinga á Íslandi er gagnlegt til samanburðarrannsókna, en hefur líklega sárasjaldan verið notað til þess að taka beinlínis ákvarðanir um málefni eins og hvort fara eigi til vinnu að morgni eða senda eigi börn í skóla eða fylgja þeim heim. Til þess hefur fólk á Íslandi í gegnum tíðina beitt dómgreind, þekkingu og stöðumati. Stundum er hægt að senda sum börn í skólann þótt vindstigin séu níu („stormur“) þótt oft hafi komið upp aðstæður þar sem fæstir myndu treysta sér út í sjö vindstigum („allhvasst“) ef aðrar aðstæður blandast þannig við vindhraðann að hætta eða veruleg óþægindi skapast.
Veðurstofunni skal sagt það til mikils hróss að þar á bæ virðist enn sem komið er vera mikil yfirvegun ríkjandi í útgáfu gulra, appelsínugulra og rauðra viðvarana. Þetta er mikilvægt því jafnvel þótt stóísk yfirvegun og jafnaðargeð ríki á Veðurstofu Íslands þá er stutt í alls konar panikk og æsing víða annars staðar. Það er til dæmis orðið þannig í skólunum að í stað þess að kennarar, nemendur og foreldrar líti út um gluggann og leggi mat á hvenær góð skíma sé til þess að hleypa börnum heim úr skóla, þá er sífellt verið að „virkja áætlanir“ og gefa út sjálfkrafa tilskipanir útum allan bæ um að sækja jafnvel stálpuð börn í skóla til þess að leiða þau jafnvel bara nokkur hundruð metra heim til sín ef gefin hefur verið út viðvörun um hugsanlegt illviðri. Hinar „virkjuðu“ áætlanir gefa því vitaskuld engan gaum þótt vindstigin séu í augnablikinu fjögur („stinningsgola“) ef búið að er lýsa því yfir í aðgerðarmiðstöð að rétt sé að gefa út viðvörun út af veðri sem hefur áhrif á færð í einhverju allt öðru hverfi.
Ég man ekki til þess að það hafi reynst kennurum, börnum og foreldrum ofviða í gegnum tíðina að taka ákvarðanir út frá bestu dómgreind og umhyggju um það hvenær rétt sé að fylgja börnum heim úr skóla. Oftast er þetta býsna augljóst, og ef mikið er að veðri þá hefur það tíðkast að fólk hjálpist að við að passa upp á hvert annað.
Í staðinn fyrir að skynsamt fólk útum allt samfélagið beiti sinni bestu dómgreind, og taki þeim óþægindum sem því fylgja, þá er ábyrgðinni varpað á einhvers konar kerfi, sem hefur vitaskuld tilhneigingu til þess að verða sífellt varkárara og brothættara eftir því sem tíminn líður. Tihneigingin til taugaveiklunar verður á endanum ofaná og þeir sem streitast á móti svona stofnanavæðingu heilbrigðrar skynsemi hætta smám saman að nenna að veita viðnám.
Ef internetið, og sérfræðingarnir í stjórnstöðinni, segja að það sé ástæða til að vera hræddur við veðrið þá hlýður maður því frekar en þeirri staðreynd að lauf eru ekki byrjuð að fjúka til á götunum (sem gerist við 3 vindstig; „gola“). Svona „öryggiskerfi“ getur nefnilega snúist upp í andhverfu sína, og veitt „falskt“ öryggi ef hin dreifða dómgreind og þekking samfélagsins hættir að vera undirstaða hversdagslegra ákvarðana eins og viðbrögð við illviðri eru á Íslandi.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021