Fyrir ári síðan þegar heimsbyggðin lokaði að sér dyrunum voru uppi raddir sem spáðu fyrir um endalok borganna. Að fólk myndi flytja umvörpum til sveita og vinna þar í alsælu fjarvinnunnar laus við samstarfsmanninn sem talar alltaf með útiröddinni inni og þurfa aldrei aftur að keyra bæjarhluta á milli að drífa sig á fundi.
Þó frásagnir af endalokum borganna hafi reynst vera stórlega ýktar þá er nýtt landslag að birtast hvað varðar tvo hluti í borgar- og viðskiptaumhverfi. Þetta er annars vegar viðskiptaferðalög og hinsvegar skrifstofuhverfi.
Viðskiptaferðalög lögðust nánast af þegar Covid takmarkanir tóku gildi. Þess í stað hófst stærsta tölvunámskeið sögunnar og fjarfundir komu í stað staðarfunda. Það er ólíklegt að viðskiptaferðalög verði jafn algeng og áður enda fólk búið að læra á öll þau tæki og tól sem þarf til þess að eiga fjarfundi. Viðskiptaferðalög á komandi misserum verða tileinkuð stærri, mikilvægari og lengri fundum en styttri og einfaldari fundir gætu verið komnir til þess að vera á netinu.
Afleiðingar þessa munu finnast bæði í flugi og gistiþjónustu. Viðskiptaferðamenn eru einungis 12% flugfarþega en þau skapa á hinn bóginn 75% af hagnaði flugfélaga. Hitt sviðið er gistiþjónusta en hótelmarkaður margra borga byggist á viðskiptaferðalöngum og er fólk í skemmtiferðum hálfgert uppfyllingarefni. Fyrir þær borgir myndast gat sem þarf að fylla upp annaðhvort með því að fjölga ferðamönnum eða með því að umbreyta gistirými í íbúðir.
Hitt svæðið sem breytingar eru fyrirsjáanlegar á eru skrifstofuhverfi. Þar sem fólk mun vinna í auknum mæli að heiman þá mun spurn eftir skrifstofuhúsnæði dragast saman. Þetta verður hvergi áþreyfanlegra heldur en í stórum miðlægum skrifstofuhverfum.
Borgir eru í hagfræðilegum skilningi markaðstorg atvinnu þar sem kaupendur og seljendur á vinnu koma saman. Kaupendur atvinnu (atvinnuveitendur) hafa þjappast saman í skrifstofuhverfi og eru fræg dæmi Wall Street í New York, City í London og Loop í Chicago.
Ein af afleiðingum Covid gæti verið að slíkir kjarnar, sérstaklega þeir sem eru best staðsettir, muni þróast í blandaðri byggð með auknum fjölda íbúða og fjölbreyttari þjónustu en var þar áður.
Kannski er skrifstofa framtíðarinnar ekki á einum stað heldur þétt net tengdra staða og þjónustu þar sem fólk velur sér vinnustað dagsins út frá verkefnum, samstarfsfólki, hreyfingu dagsins og jafnvel hvað gerist fyrir og eftir vinnu.
Þessi nýja heimsmynd hefur fjölda tækifæra í för með sér. Eitt stærsta tækifærið er að fjölga vinnustöðum um alla borg í sem fólk getur gengið og hjólað til. Skapandi greinar fá sömuleiðis nýtt tækifæri til þess að setja mark sitt á hverfi borga.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021