Meira en helmingur mannkyns sætir nú einhvers konar útgöngubanni vegna COVID-19. Þrátt fyrir fjöldaframleiðslu á sviðsmyndum er enn mikil óvissa um bæði framvindu og afleiðingar þessa heimsfaraldurs. Það er þó ljóst að afleiðingarnar verða bæði mjög alvarlegar og víðtækar.
Á Íslandi hafa heilbrigðisyfirvöld ásamt Almannavörnum staðið í stafni fyrir aðgerðir stjórnvalda til að ráða niðurlögum COVID-19 á meðan stjórnmálamenn hafa sinnt því hlutverki í sumum löndum. Þríeykið svonefnda; Alma landlæknir, Þórólfur sóttvarnarlæknir og Víðir yfirlögregluþjónn (getum við sammælst um Víðalmólfur) hafa sinnt ítarlegri upplýsingagjöf á daglegum blaðamannafundum og stuðlað að trausti í samfélaginu gagnvart þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.
Aðgerðir á Íslandi gegn COVID-19 hafa vakið athygli á heimsvísu og skapa jákvæðar fréttir um Ísland á mikilvægum tímum. Fjallað hefur verið um hve margir hafa verið skimaðir og settir í sóttkví ásamt þeirri áherslu sem hefur verið lögð á að rekja öll smit. Þá hefur athygli beinst að íslensku hugviti og tækni s.s. vegna vinnu Decode við skimanir og greiningar og samvinnu tæknifyrirtækja við smíði á rakningarforriti á mettíma. Það að athygli fjölmiðla beinist að aðgerðum sem byggja á vísindum, trúverðugleika, hugviti og tækni styrkja ímynd Íslands og þegar frá líður þá munu þessar jákvæðu fréttir hjálpa okkur að takast á við afleiðingar COVID-19.
Aðgerðir stjórnvalda til að styðja við atvinnulíf og íbúa munu hjálpa okkur að halda sjó eins og hægt er gegnum næstu vikur og mánuði en hjá mörgum fyrirtækjum hefur nánast skrúfast fyrir tekjur, sérstaklega hjá ferðaþjónustunni vegna lokunar landamæra. Væntanlega verður tilkynnt um frekari aðgerðir stjórnvalda en hvert okkar getur einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að versla við íslensk fyrirtæki og ferðast um landið okkar þegar Víðalmólfur gefur grænt ljós. Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta byggst upp í öllum landshlutum og það er margs að njóta fyrir Íslendinga sem ferðast innanlands í ár.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021