Á meðan almenningur á Íslandi er jafn meðvitaður um smitstuðul og nýgengni og hann var um skuldatryggingaálag bankanna á mánuðum fyrir fjármálakreppuna árið 2008, á meðan fólk stillir viðtækin á hverjum degi til að fylgjast með nýjustu tölum um fjölda nýrra smita, fjölda í sóttkví, fjölda í einangrun, allt eftir landshlutum, með svipuðum hætti og það fylgdist með hlutabréfavísitölunni fyrir hrun, á meðan yfirvöld grípa inní ýmist of harkalega eða of lítið og of seint, gera aldrei nóg fyrir suma en alltof mikið fyrir aðra, á meðan helmingurinn af þjóðinni fylgist með því hvort hinn helmingurinn fylgi fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda og tilkynningum um ólögleg barnaafmæli og fjölskylduboð er fylgt eftir með lögregluvaldi, þá hafa þeir sig hæga sem eiga mest undir því að núverandi valdhafar, núverandi ráðamenn, kjörnir og ókjörnir, áhrifafólk og valdakjarnar, setji framtíðina ekki í enn meira uppnám en orðið er.
Hluti af þessum hópi, hinum þögla hópi, eignaðist í dag málsvara þegar íþróttaþjálfarinn og æskulýðsfrömuðurinn Óskar Bjarni Óskarsson, yfirþjálfari handknattleiksdeildar Vals, steig fram. Í viðtali við mbl.is í dag vekur Óskar Bjarni athygli á því að bann við æfingum og keppni sé farið að hafa veruleg áhrif á íslensk ungmenni.
„Við verðum að fara að gera eitthvað. Er ekki hægt að vera með litla hópa sem geta komið saman í risastór íþróttahús og gert eitthvað? Ef við erum svo að horfa upp á fjórðu bylgju þá verður að finna einhvera lausn á þessu. Það er bara ekki hægt að taka af þeim skóla og íþróttir í svona langan tíma,“ segir Óskar Bjarni í áðurnefndu viðtali.
Þótt hér sé sjónum beint að stöðu ungs fólks í íþróttum þá eiga sömu sjónarmið við annars staðar. Fjórða bylgjan kemur, sú fimmta og sennilega sú sjötta áður en bóluefnið stöðvar útbreiðslu veirunnar, þessarar veiru. Ekki þeirrar næstu. Hvernig ætlum við þá að bregðast við? Verða sóttvarnir tilgangur lífsins?
Við verðum að finna lausn á þessu, eins og Óskar segir.
Það eru engar tölur lesnar upp í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins um það sem íslensk ungmenni fara á mis við í þessum fordæmalausu aðgerðum stjórnvalda og annarra valdhafa í landinu, það eru engar tölur lesnar upp um sálarangist hinna jaðarsettu, um einmanaleikann, um ofbeldið, um vonleysið eða um sjálfsvígin; engir ábúðarfullir sérfræðingar í beinni útsendingu sem birta tölfræðilegt yfirlit yfir þann skaða sem lokanir og útilokanir, boð og bönn, valda á möguleikum og lífsgæðum þeirra kynslóða sem þó eiga – ólíkt hinum – allt lífið framundan.
Verðum við ekki að fara að gera eitthvað?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021