„Íslenskur kynvillingur að verki með negra“ hljómaði fyrirsögn á Tímanum árið 1952. Margir taka þessa fyrirsögn og fréttina sjálfa sem dæmi um hugarfarið á þesssum tíma. Hugarfar fordóma og umburðarleysis.
En til að vera fullkomlega sanngjarn, þá gilti það ekki um alla. Skömmu eftir að fréttin birtist birtist eftirfarandi texti í Kvöldþönkum Vísis, þar sem greinarhöfundur var greinilega ekki ánægður með þá á Tímanum. Þar sagði
„GAMALT ORÐTÆKI, segir, að vitleysan ríði ekki við einteyming. Mér datt þetta reiðlag vitleysunnar í hug í fyrradag, þegar ég las feitletraða frétt í Tímanum, þar sem þess var getið með mikilli vandlætingu, sýnilega öllum almenningi til ótta og aðvörunar, að íslenzkur kynvillingur hefði lagt lag sitt við negra. Af þessum atburði dregur Tíminn þá ályktun, að tíminn sé til kominn að taka fast í taumana í siðferðilegum efnum.“
So far so good. Kvöldþönkum er ekki skemmt yfir framsetningu Tímans. Svo er haldið áfram:
„Varla leikur efi á því, að frétt þessi og ályktanir þær, sem af henni eru dregnar, eru skrifaðar af fávizku en ekki illmennsku. Fréttaritarinn veit sýnilega ekki, að kynvilla er áskapaður eða áunninn sjúkleiki, sem veldur miklum truflunum á öllu tilfinningalífi sjúklinganna og oftast megnri vanmetakennd. Talið er, að kynvilla sé ásköpuð allt að því tveimur prósentum mannkynsins, og þótt margt hafi verið reynt, til þess að lækna sjúklinga þá, sem lengst eru leiddir, hefir ekki tekizt að finna neinar öruggar aðgerðir til úrbóta.“
Tíminn fær á lúðurinn fyrir framsetningu sína. Veit fólk ekki að samkynhneigðir eru fársjúkt fólk sem þarfnast hjálpar?
Svona heldur þetta svo áfram: Restina af greininni má finna hér:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=82045&pageId=1174275
En áður en við setjum okkur á allt of háan stall gagnvart höfundi Kvöldþanka Vísis árið 1952 þá skulum við átta okkur þá því umhverfi sem hann býr í. Í hans augum eru eftirfarandi allt staðreyndir:
- „Kynvilla“ er ekki samfélagslega viðurkennd.
- „Kynvilla“ er sjúkdómur að mati lækna.
- Engin þekkt „lækning“ er til.
Hinn umburðarlyndi hugsar: „Það ber að líta á þetta sem sjúkdóm, ekki glæp. Það á ekki að fangelsa fólk fyrir kynvillu því það á ekki að setja veikt fólk í fangelsi. Síðan þarf að finna leiðir til að finna lækningu, eða í það minnsta gera líf fólks bærilegra. Tryggja það að menn smiti ekki aðra af kynvillunni. Það þarf að beita fræðslu og skaðaminnkun.“ Eða svo við gefum Kvöldþönkum Vísis orðið:
„Þá er og þess að gæta, að allur almenningur á heimtingu á því að vita hvað kynvilla er í raun og veru, og eins á hvern hátt einkennin lýsa sér. Einkum þurfa æskumenn að vita á þessu glögg skil, því að eftir samfélagi við þá sækjast sjúklingarnir mjög og eru mörg dæmi þess, að unglingar, sem að eðlisfari eru heilbrigðir, hafa vanist á kynvillu af annarra sjúklinga
völdum.“
Í dag erum aftur á stað þar þar sem ákveðinn hópur samfélagsins stundar iðju sem litin hornauga og er raunar ólögleg. Hinn umburðarlyndi hluti samfélagsins talar um þetta fólk sjúklinga og vill koma því undir læknishendur. Ég er ekki viss um að þær skoðanir muni eldast jafnvel og fólk heldur.
Ár hvert eru um 1000 manns eru sektaðir fyrir að hafa minniháttar magn eiturlyfja í fórum sér.
Ég ætla að halda eftirfarandi fram:
„Þetta eru ekki allt sjúklingar sem þurfa aðstoð.“
Það kemur í ljós eftir einhverja áratugi hvort þessi skoðun verði mér til háðungar, eða ekki.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021