Ég er hægrikrútt. Hægrikrútt eru hægrimenn sem vinstrimenn umbera. Vinstrimönnum þætti ekkert að því ef sumir, ja, jafnvel margir hægrimenn hyrfu úr lífi þeirra. En þeir hefðu ekkert á móti því að halda nokkrum hægrikrúttum. Ekki til að við myndum stjórna neinu, heldur sem kryddi í tilveruna og sem málefnalegri en ávalt mjög svo kurteisri stjórnarandstöðu við stjórn upplýstra sósíaldemókrata.
Til að vera hægrikrútt þarf maður að uppfylla nokkur skilyrði. Fyrsta skilyrðið er algjör og skilyrðislaus afstaða gegn hvers kyns útlendingahatri, hommahatri, kvennahatri og öðru sambærilegu kjaftæði. Næsta er að hafa einhvers konar sérstöðu frá svona þöngulhausa-hægrimönnum. Þetta getur falist í einhverju af neðantöldu:
- Að hata ekki hjólastíga
- Að hata ekki strætó
- Að hata ekki Evrópusambandið
- Að hata ekki listamenn
Þannig sýnir hægrikrúttið að það sé ekki stjórnmálum eins og sumt fólk er í íþróttum, hægrikrúttið er frumlegt í hugsun. Þannig nennir fólk að tala við hægrikrúttið. Það er laust sæti fyrir það á Kexinu. Það fær að mæta í þáttinn hans Gísla Marteins.
Hægrikrúttið má ekki klæðast jakkafötum eða dragt. Það verður að vera kasúal, en samt ekki jeppapabbakasúal. Það má vera í stórri úlpu til að undirstrika tíða borgarútiveru. Já, og kaffið sem hægrikrúttið drekkur verður að koma frá Kaffitári eða álíka.
Af og til þegar hægrikrúttið talar við vinstrimenn segir það eitthvað óþægilega hægrisinnað. Það til dæmis lýsir yfir efasemdum um kynjakvóta, finnst of miklir peningar fara í velferðarmál, vill einkarekstur í skólakerfinu. Eða segir eitthvað fallegt um Ronald Reagan. Þá verða allir vandræðalegir eða hissa. Segjast verða fyrir vonbrigðum með hægrikrúttið. Þeir héldu að það væri ekki svona.
En við erum samt svona. Því þótt bílarnir okkar séu gamlir og húfurnar furðulegar þá erum við samt hægrimenn. Við viljum á frelsi einstaklingsins og einkarekstur. Jafnvel þótt einhver kunni að skaða sig á frelsinu, jafnvel þótt einhver mun ekki eiga efni á einhverju einkareknu. Og dag einn mun tími okkar koma. Við munum bíða fyrir framan Melabúðina daginn sem vín verður selt í búðum. Við munum fagna með fólkinu sem kaupir fyrstu löglegu jónuna. Kannski verðum við ekki lengur ung. En vonandi verðum við áfram krútt.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021