Umferðarlögin eru þrjátíuogátta blaðsíður. Sumt í þeim er ekki á vitneskju allra. Lokamálsgrein 26. greinar laganna er til að mynda holl lesning fyrir ökumenn sem eiga leið sína yfir ljósastýrð gatnamót af og til: Það er bannað að fara út á gatnamót ef ökumaðurinn sér ekki fram á að komast yfir ljósin áður en það kemur grænt á þverstæða átt. Ef ég fengi krónu fyrir hvert skipti sem flautað hefur verið á mig fyrir að fylgja þessum fyrirmælum ætti ég fimm krónur. Það er þó fimm krónum of mikið.
Ég keypti mér rafhlaupahjól í fyrra og tók þessum nýja ferðamáta fagnandi. Það hægir töluvert á mér að ferðast um á því á gangstétt, og ég ímynda mér að gangandi vegfarendum þyki óþægilegt að lenda í því að hlaupahjól þeytist fram úr þeim. Því notaði ég götuna þegar ég gat. Eftir nokkrar vikur áttaði ég mig á því, eftir að hafa fengið nokkur hornaugu frá ökumönnum, að ég var að brjóta lögin. Í umferðarlögunum stendur nefnilega að rafhlaupahjólum megi ekki aka á akbraut. Hver hefði trúað því? Venjuleg reiðhjól mega vera á götunum. Merkilegra þykir mér að sjá auglýsingar þar sem vakin er athygli á þessu eins og þetta sé sjálfsagt: Rafhlaupahjól eiga ekki heima á götunum. Af hverju? Hver eru rökin? Ég skil þetta ekki. Ég hefði haldið að þau ættu miklu frekar heima á götunum en á gangstéttum þar sem þau geta valdið gangandi vegfarendum voða. Og af hverju þá að leyfa venjuleg reiðhjól, sem komast ekki eins hratt, á götunum?
Ég er raunar þeirrar skoðunar að gangstéttir eigi að vera fyrir gangandi vegfarendur. Allt annað á að vera sem oftast á hjólastíg eða götu. Til að koma til móts við hjólandi ætti að stilla hámarkshraða á akbrautum í þéttbýli í hóf og bjóða hjólafólk velkomið þangað. Ef hjólað er á gangstétt, ætti það að vera á gönguhraða ef gangandi er nálægt.
Ef marka má umræður í Facebook-hópum tileinkuðum hinum ýmsu samgöngumátum er töluvert um heift og skotgrafir. Fólk verður jú að hafa eitthvað fyrir stafni og því er um að gera að pirra sig svolítið á fimm millistjórnendum á racer-hjólum á götunni á Eiðsgrandanum. En gamla góða Víðiskvæðið á hér við eins og í öllu öðru: Við vinnum þetta saman. Umferðin felur í sér samskipti. Ekki vera asni og ekki pirrast þó að annar sé asni. Slakið á. Það komast allir sinna ferða. Það er fínt og jafnvel nauðsynlegt að lesa umferðarlögin, en það væri ágætis byrjun að ákveða bara að vera ekki asni í umferðinni.
- Hugleiðingar mónógamista - 28. maí 2021
- Við erum öll Samgöngustofa - 24. mars 2021
- Konráð hjá Deiglunni hér - 8. janúar 2021