Forsvarsmenn Orkunnar okkar hafa gert mikið úr því að með innleiðingu orkupakka EES-samningsins muni ríkinu verða skylt að ,,[..] ryðja úr vegi hindrunum fyrir millilandatengingu“ og ,,afnema takmarkanir í viðskiptum með rafmagn milli aðildarríkjanna“ og að þetta feli í sér einhvers konar skyldu íslenska ríkisins að heimila lagningu sæstrengs.
Auðvitað er þetta ekki raunin. Með innleiðingu 3. orkupakkans er gerð tilraun til að búa til opinn og gagnsæjan markað með raforku og reynt að tryggja m.a. að ómálefnalegar eða pólitískar hindranir séu ekki ráðandi. Þannig séu ákvarðanir um sölu rafmagns um tengivirki í Evrópu séu gerðar á markaðsforsendum.
Svipuð sjónarmið eru uppi vegna lagningar Nord Stream gasleiðslunnar frá Rússlandi til Evrópu. Rússar hafa t.a.m. neitað að innleiða ECT (Energy Charter Treaty) en líkt og orkupakkarnir er markmiðið með því samkomulagi að skapa skilyrði fyrir skilvirkum markaði. Meðal annars til að koma í veg fyrir að Rússar noti viðskipti með jarðgas til að beita viðskiptaþvingunum gagnvart einstökum ríkjum Evrópu.
Eins og ítrekað hefur verið bent á verðum við ekki neydd til að leggja sæstreng á milli Íslands og Evrópu. Stjórnvöld fara með skipulagsvaldið ásamt því að hann verður aldrei lagður nema að fyrir honum séu skýrar efnahagslegar forsendur. Þannig þarf að vera ljóst að að við sem eigendur orkunnar, eigendur dreifikerfisins og auðlindarinnar þyrftum að hafa af því skýran ávinning.
Til þess að þær forsendur séu til staðar þarf tvennt að koma til. Annars vegar þarf að vera næg orka eða vilji til að virkja meira og hins vegar þarf orkuverð að vera nógu hátt til að framkvæmdin borgi sig. Að af henni yrði ávinningur sem við sem eigendur auðlindanna og orkufyrirtækjanna myndum njóta.
Hvorugt á við í okkar tilfelli. Markaðsverð í Evrópu er einfaldlega ekki nógu hátt til að réttlæta framkvæmd af þessari stærðargráðu. Samkvæmt skýrslu Kviku og Pöyry frá 2016 þyrfti að gera 15 ára afhendingarsamning, helst með ríkisábyrgð, með lágmarsverði um 119 Evrur á MWst. Raforkuverð í Evrópu er nú um 40-60 Evrur MWst. Orkan er heldur ekki tiltæk til að fæða strenginn og á forræði íslenskra stjórnvalda, fyrir og eftir orkupakkann, að ákveða frekari virkjanaframkvæmdir.
Það er jafnframt misskilningur að halda því fram að við sem eigendur orkunnar verðum á einhvern hátt hlunnfarin ef Ísland tengist alþjóðamarkaði. Í því felst nefnilega sóun að selja t.d. raforku undir markaðsvirði og ekki góð nýting á auðlindunum. Þær þjóðir sem stunda það eru ekki þekktar fyrir góða nýtingu náttúruauðlinda enda skapa slík undirboð forsendur fyrir sóun og óskilvirkni.
Jafnframt má benda á að hátt í 80% af orkunni sem við Íslendingar framleiðum er seld til erlendra stórkaupenda og því augljóst að við myndum almennt njóta góðs af hærra raforkuverði. Þó svo að talið sé að raforkuverð til almennra notenda gæti hækkað um 5-10% myndu landsmenn heilt yfir njóta töluvert meiri ávinnings en sem því nemur.
En það getur svo sem vel verið að það teljist eftirsóknarvert í hugum einhverra að geta útdeilt duldum ríkisstyrkjum í formi lægra raforkuverðs og miðað við málflutning forsvarsmanna samtakanna Orkan okkar virðist það vera drifkrafturinn í baráttu þeirra.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021