Ef marka má samfélagsmiðla hefur áhugi á laxveiði aldrei verið meiri á Íslandi. Raunar má halda því fram miðað við það sem fram kemur á sömu miðlum að aldrei hafi verið skemmtilegra að veiða lax. Ennfremur bendir allt til þess að íslenskir veiðimenn hafi aldrei verið flottari og félagsskapurinn aldrei betri. Allt þetta á sama tíma og veiðin hefur bara eiginlega aldrei verið verri.
Það er vissulega fagnaðarefni að ekki stefni í ofveiði þrátt fyrir fjölgun veiðimanna og að því er virðist aukna sókn. Veiði á laxi, sem upphaflega var auðvitað til nytjar, virðist vera að breytast úr sportveiði í eitthvað alveg nýtt og í raun er ekki hægt að lýsa þessum nýja veiðiskap öðruvísi en svo að á ferðinni sé einhvers konar afþreying þar sem hinn yfirlýsti tilgangur á eiginlega ekkert skylt með hinum eiginlega.
Veiði er auðvitað della þegar allt kemur til alls. Enginn getur sett sig á háan hest gagnvart öðrum í því efni. Þó má segja að sú afþreying sem felst í veiðinni sjálfri verði heldur lítil ef ein mikilvæg forsenda er ekki til staðar og hún er sú að maður verður að hafa gaman að því að veiða ekki neitt. Það er jú það sem er að gerast 99% af þeim tíma sem veitt er.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021