Í húsinu mínu eru tveir inngangar. Sá fyrsti er sá sem flestir íbúar nota til að komast inn í húsið. Það er innkeyrslan inn í bílakjallarann. Seinni innganginn nota flestir íbúar til að fara út með ruslið og tæma póst, aðallega ruslpóst úr pósthólfinu. Gestir koma líka í gegnum þennan inngang. Og börn þegar þau eru ekki keyrð.
Síðari inngangurinn er í daglegu tali kallaður aðalinngangur og en er samt ekki aðalinngangur. Allavega ekki sá inngangur sem notaður er aðallega. Það er svo sem ekkert nýtt að það sé þannig. Rík hefð er fyrir að nota bakdyrainnganga sem aðalinnganga á Íslandi og víðar. Líklegast er þingið eitt besta dæmið um þetta en þar aðalinngangurinn notaður einu sinni á ári. Þess utan fara menn inn á hlið. Nú eða í gegnum… bílakjallarann.
Lengi vel var ég sjálfur á þeirri skoðun að það sé alveg bráðsniðugt að henda bílastæðakjöllurum undir hús. Þar með sparaðist pláss ofanjarðar sem nýta mætti frekar til að byggja hús fyrir fólk til að vera í. Kjallarar verja bíla fyrir veðrum og allt það. En það eru auðvitað ókostir líka.
Kjallarar eru dimmir og leiðinlegir, kalla síður á samskipti nágranna, húsin verða meira eins og virki sem fólk fer inn í eins og furstar á hestvögnum og svo kostar þetta auðvitað líka. Ætli fasteignamatið á dæmigerðu stæði í kjallara sé ekki svona 5-10 miljónir eða 10-20% af verði íbúðar. Að bjóða fólki að geta sleppt við þennan kostnað, sérstaklega ungu fólki sem er ekki enn komið á skutlaldurinn, er líklegast með betri leiðum til að lækka byggingarkostnað stakra íbúða.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021