Þeirrar tilhneigingar hefur gætt á Íslandi undanfarinn áratug að ákvörðunarvald hefur verið að færast frá þeim sem ábyrgð bera á ákvörðunum til þeirra sem hvergi þurfa að svara fyrir slíkar ákvarðanir. Það er kallað faglegt þegar svona háttar til, þegar fólk sem enginn hefur kosið, enginn þekkir, enginn getur kosið burt í næstu kosningum, enginn getur hreyft við, tekur ákvarðanir sem allt annað fólk ber ábyrgð á.
Völd stjórnmálamanna eiga að vera sem minnst. Eða réttara sagt, völd þeirra sem fara með völdin yfir öðrum eiga að vera sem minnst. Þetta er auðvitað ekki óumdeild skoðun. Á öndverðum meiði eru þeir sem telja að völd þeirra sem fara með völdin eigi að vera sem mest, að þeir eigi að ráða sem mestu um líf þeirra sem hafa falið öðrum að stjórna samfélaginu.
En að svo miklu leyti sem vald einhverra yfir öðrum er nauðsynlegt þá er alveg sérstaklega óheppilegt ef beiting þess valds er ekki ábyrgð þess sem því beitir og þar af leiðandi ekki í neinum tengslum við afleiðingar þeirrar valdbeitingar fyrir þann sem fyrir henni verður. Með því að slíta í sundur vald og ábyrgð er grundvöllur fyrir samfélagssáttmálanum um að einn fari með vald yfir öðrum hruninn.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021