Það hlýtur að vera langtímaverkefni allra landa að eyða sem minnstum peningum í heilbrigðiskerfið. Ekki öfugt. Það ætti að vera augljóst – lífið er skemmtilegra ef við getum eytt minni peningum í nauðsynjar og meiri peningum í vitleysu.
Neytendur í fátækari löndum eyða til dæmis upp undir helmingi allra tekna sinna í mat. Í ríkari löndum er talan nálægt 10-20%. (Sjá: hér). Einu sinni fór stór hluti útgjalda fólks í að halda sér heitu. Nú eru íbúðirnar okkar heitari en nokkru sinni fyrr en reikningur vegna hita og rafmagns oftast aðeins tiltölulega lítill hluti heimilisútgjaldanna.
Svona hafa tækniframfarir, með dyggri hjálp skítugra krumla kapítalismans, gert heiminn að betri stað. Það er augljóst að það hlýtur að vera markmið okkar að senda fleiri nauðsynjar sömu leið: Væri ekki gaman ef 10% af mánaðarlaunum færu í húsnæðiskostnað en ekki 30%-50%? Væri ekki gaman ef við gætum eytt miklu minni peningum í heilbrigðiskerfið og samt uppskorið betri heilsu og lengri lífslíkur?
Það blasir við að tækifærin eru til staðar. Góður farsími geymir: hreyfiskynjara, hágæðamyndavél, hljóðnema, ljósnema, rakaskynjara, áttavita, loftvog, gíróskóp ásamt fingrafara- og andlitsnemum. Tækifærin til að geta greint sjúkdóma og kvilla rétt eiga því að vera til staðar. Ímyndum okkur ef allir gætu beint símanum að kokinu og komist að því um leið hvort þeir væru með kórónaveiruna eða ekki. Öll meðhöndlun sjúkdóma yrði svo margfalt ódýrari og hnitmiðaðri.
Þessi þróun mun verða, það er bara spurning hvenær hún hefst og hvar. Það er miklu meiri ástæða til að verða spenntur fyrir þessari framtíð en loforðum um meiri og meiri opinber útgjöld til málaflokksins. Matur og föt lækkuðu á endanum ekki í verði vegna meiri ríkisframlaga heldur vegna tækniframfara sem knúðar voru áfram af markaðsöflunum.
Einhvern veginn grunar mann samt að næstu byltingar í þá veru að nýta tækni til að lækka kostnað við heilbrigðisþjónustu verði ekki endilega á Vesturlöndum. Við munum að einhverju leyti líða fyrir það, að eiga efni á því á borga fyrir dýra, og gjarnan mannfreka, þjónustu.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021