Skipulagsmál ætla að verða helsta hitamálið næstu árin í borgarmálunum og örugglega eitt helsta kosningamálið árið 2002. Um þessar mundir beinist athyglin einna helst að flugvellinum og fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu R-listans meðal Reykvíkinga. Jafnvel virðast ætla að rísa deilur milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um járnbraut sem verður líklega aldrei lögð. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði sá meira að segja sérstaka ástæðu, til að lýsa persónulegri andúð sinni á járnbrautum sem slíkum í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi.
En skipulagsmálin snúa einnig að öðrum þáttum, sem kannski eru ögn meira aðkallandi en eimreið suður með sjó. Lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu hefur af gagnrýnendum R-listans verið talin ein sterkasta vísbendingin um getu- og fyrirhyggjuleysi hans í skipulagsmálin. En í SILFRI EGILS fyrir viku leiðrétti Hrannar B. Arnarson, borgarfulltrúi R-listans, þessa bábilju í eitt skipti fyrir öll. Kom það fram hjá Hrannari, að ekki væri getu- eða fyrirhyggjuleysi um að kenna að skortur væri á lóðum í Reykjavík, heldur væri það meðvitaðri og fyrirfram mótaðri stefnu R-listans fyrir að þakka. Hrannar sagði R-listann nefnilega ekki aðhyllast útþenslustefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum, sem fælist í því að byggja endalaust ný og ný hverfi.
Með öðrum orðum: ef R-listinn hefði stjórnað borginni jafnlengi og sjálfstæðismenn væri Hringbrautin það sem hún átti upphaflega að vera; hringbraut utan um kauptúnið Reykjavík. Orðið útþenslustefna í máli Hrannars minnti reyndar skemmtilega mikið á orðið heimsvaldastefna, sem forverar hans á vinstri væng íslenskra stjórnmála notuðu sí og æ um viðhorf borgarastéttarinnar og Sjálfstæðisflokksins.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021