Myndin er tekin í Vallarstræti 21. ágúst. Þarna er frábært veður. Göngugatan er vel merkt sem slík. Staðirnir við Vallarstræti hafa fært stóla og borð út. Setið er í hverju sæti en þó hægt að ganga milli borðanna í átt að Ingólfstorgi. Eftir göngugötunni.
Myndin sýnir reyndar líklegast lögbrot. Og ekki bara meint brot á sóttvarnarlögum. Samkvæmt umferðarlögum á stór hópur fólks og bíla, nokkur þúsund manns að geta keyrt þarna. Samkvæmt lögum á akstursþjónusta fatlaðra, handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningafólk að geta keyrt þarna í gegn á öllum tímum sólarhringsins.
Samkvæmt lögum eiga þessir aðilar að geta keyrt hringinn í kringum Austurvöll enda Vallarstræti og Thorvaldssenstræti hvort tveggja göngugötur. Þá eiga þessir aðilar einnig að geta keyrt upp frá Ingólfstorgi og inn á Austurvöll, enda sá bútur líka göngugata.
Ég efa það ekki eina stund að ásetningur Alþingis með lagaákvæðinu hafi verið góður, að tryggja aðgengi. En ég efast um menn hafi gert sér grein fyrir því að með ströngustu túlkun laga sé í reynd búið að breyta Austurvelli í umferðareyju rétt eins og völlurinn var fyrir nokkrum áratugum síðan.
Finna þarf lausnir sem tryggja að göturýmið sé aðgengilegt öllum sem þurfa, þó án þess að snælduvitlaust fólk keyri vísvitandi á gangandi vegferendur í bræðiskasti eða að dópistar næstum því drepi börn. Leiðin gæti falist í rafrænni lokun, myndavélaeftirliti með bílnúmeraplötum, eða varanlegri lokun fyrir umferð þar sem aðgengismál má sannarlega leysa með betri hætti. Staðan eins og hún gengur ekki upp.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021