Jæja kæru vinir. Ég var á flandri um landsbyggðina síðustu sex daga og er nú komin aftur í höfuðborgina, reynslunni ríkari, með örlítinn snert af kúltúrsjokki þrátt fyrir að lengsta ferðin hafi bara verið 350 km frá Reykjavík.
Nú skal það viðurkennast að ég hef verið óttaleg snobbhæna síðustu ár enda er maður óumflýjanlega alltaf að mjakast meira inn að miðbaug lífaldurs. Kann þannig betur við gott rauðvín í glerglasi og uppbúið rúm með 1000 þráða rúmfötum úr egypskri baðmull en að liggja svefnvana í sveittu tjaldi. Andvaka og tens með 80% af andlegu orkunni á þanþoli í því að reyna að blokkera út kófdrukkinn rafvirkja í 40 metra fjarlægð fyrir utan splúnkunýtt fellihýsi, berjandi illa stilltan gítar, emjandi: „‘Cause I try and I try and I try and I try, I can’t get no, I can’t get no“… Blautar túnfissamlokur og kramdar kókómjólkurfernur. Æi pass.
Í stuttu máli hef ég ekki farið í útilegu síðan 1999. Af því ég fékk bara áfallastreitu af þessu tjaldstæðarugli. Sönn saga. Svo fór ég út á land fyrir síðustu helgi og kom heim í dag. Aftur í sjokki, – en nú af allt, allt öðrum ástæðum.
Túristinn er nýja síldin
Hvorki fyrr né síðar hafa jafn margir ferðamenn sótt þetta land heim og sífellt hækkar talan. Ástæðurnar fyrir áhuga þessara gesta eru margar og mismunandi en hér skal ég telja upp nokkrar:
Ísland er ómengað
Ísland er öruggt
Ísland er fallegt
Ísland er fjölbreytt
Ísland er friðsælt
Íslendingar eru næs og hjálpsamir
Íslenskur matur er ferskur og lífrænn (lamb, silungur, fiskur…)
Ísland er spes
Ísland er stórt
Ísland býður upp á fjölbreytta afþreyingarmöguleika
Íslenskt vatn er ferskt
Ísland er vistvænt
Ísland er listrænt
Núna. Árið 2016, eru hreinleiki, ferskleiki, frelsi og náttúrufegurð eitthvað sem selst vel en við sem sölumenn þurfum líka að kunna okkur hóf og fara ekki fram úr okkur eins og við höfum gert áður.
Sumarið 2007 leið mér eins og berfættum hobbita á miðri hraðbraut með svarta Range Rovera brunandi á 120 til hægri og vinstri. Það gerðist allt svo hratt! Maður var í sjokki. Núna er ég í svipuðu sjokki. Hlutirnir eru að gerast of hratt.
2007 var einmitt ár svínsins í kínverskri stjörnuspeki. Svínin tengjum við meðal annars við græðgi. Og 2016 er ár apans sem gerir þetta allt pínu fyndið.
Hvað gerðist?
930 Íslendingasögurnar, 1955 Laxness, 1980 Vígdís, 1993 Björk, 1999 Sigurrós/Ágætis Byrjun, 101 Reykjavík/kvikmyndin, 2006 Icesave… og svo rúllar þetta bara…
2006: Facebook
2008: Hrunið
2009: Like takkinn við fréttir ofl á Facebook
2010: Eyjafjallajökull
2010: Inspired by Iceland
2010: Instagram
2012: Prometheus og Game of Thrones
2013: Walter Mitty
… Russel Crow, Sean Penn, Ryan Gosling, Beyoncé, Justin Bieber, Kardashian kúlurnar, Beckham hjónin…. kanónur fyrir kontent marketing skella í selfís fyrir framan jökla og fossa, gera bíómyndir og tónlistarmyndbönd og ekkert lát virðist á vinsældunum. „Everybody wants to go to Iceland“.
Hvað skal til brags taka?
Það kemur margt upp í hugann en í fljótu bragði vil ég nefna eftirfarandi:
1. Allsherjarþing hjá ferðabransanum einu sinni til tvisvar á ári og aðgerðaplan fyrir næstu 6-12 mánuði ásamt ýtarlegri ráðgjöf frá lengra komnum (já, það er hægt að klúðra þessu með græðgi og vanþekkingu).
2. Umbætur á brúm, umferðaskiltum og vegum (fer nánar út í það í öðrum pistli).
3. Hlið og gjald í þjóðgarða og búa til fleiri þjóðgarða. Heimamenn fá að borga minna (eða ekkert). Réttlætingu á því má m.a. lesa um HÉR. Hugmyndir að gjaldskrá HÉR.
Suður á bankanna vald
Síldin kom og síldin fór. Það sama getur gerst með blessaða ferðamennina. Kapp er best með forsjá. Ef við ætlum að halda kúlinu og forðast það að ramba í annað heimskulegt gjaldþrot þá skulum við hægja aðeins á fartinni og þurrka græðgisfroðuna úr munnvikunum.
Staðan er sú að við höfum hér gull í höndum og þetta gull er landið sem ól langömmur okkar flestra og langalangalanglanglangömmur þeirra frá sirka 840. Við erum samvaxin þessum klaka. Af þessu bergi brotin. Spruttum hér upp í hraungrýtinu líkt og blóðbergið. Margir munu vilja eignast landið, bæði leynt og ljóst, og því þurfum við að passa okkur á mörgu.
Við viljum ekki vera eins og hugarfóstur Íslandsvinarins J. R.R. Tolkien, Smjagall, sem fannst einmana, örmjór og visinn af græðgi í dimmum helli. Við viljum heldur ekki vera eins og maðurinn sem hafði saumakonurnar ofan í kjallara og borgaði þeim í Sprite Zero, frönskum og Winston. Eða aðrir atvinnurekendur sem misnota sér ævintýraþrá og ást erlendra ungmenna á Fróni og fjöllum og borga þeim eitthvað langt undir taxta fyrir að vinna þjónustustörfin sem við ráðum ekki við.
Við viljum ekki vera fávitar.
Reynum því að slaka örlítið á, stilla okkur af, plana og ráðgera. Tíu ár fram í tímann er lágmark. Ef við vöndum okkur ekki þá fer þetta bara allt í vaskinn. Án gríns. Það hefur gerst áður.
- Veröld ný og óð – Fréttaveitan, Facebook og óvinir frelsisins - 31. janúar 2017
- Túristinn er nýja síldin – Kapp er best með forsjá - 25. júlí 2016
- Ein eilífðar hreinmey, í úlfahjörð, sem skrifar svo undir og deyr - 13. júlí 2016