Reglulega skjóta töfraorð upp kollinum og hið nýjasta er væntanlega töfraorðið markaðslaun. Verslunarmannafélag Reykjavíkur segist hafa snúið baki við kjarabaráttu síðustu aldar (væntanlega 19. aldar þar sem enn eru tæpt ár eftir af þeirri tuttugustu). Birti félagið auglýsingu í Ríkissjónvarpinu í kvöld þar sem félagsmenn voru hvattir til að samþykkja ekki strípuð taxtalaun. Sagði að vinnuveitendur sem einungis greiddu taxtalaun bæru ekki virðingu fyrir starfsfólki sínu.
Það er skiljanlega freistandi fyrir launamenn að vilja hverfa frá taxtalaunastefnunni eins og nú árar í þjóðfélaginu. Fyrirtæki skila flest góðum hagnaði og efnahagslífið blómstrar, þótt eitt og eitt blað fölni. En hvað gerist þegar harðnar tekur á dalnum, hversu aðlaðandi verða markaðslaun þá? Deiglan hefur aldrei farið í neinar grafgötur með dálæti sitt á einstaklingshyggju og það er vissulega jákvætt að launakjör fólks ráðist af verðleikum hvers og eins. En út frá stéttapólitísku sjónarmiði má gjalda varhug við markaðslaunstefnunni.
Það hýtur nefnilega að liggja í eðli málsins, að fyrirtæki lækki laun þegar illa gengur, ef það þarf að hækka laun þegar vel gengur. Þegar og ef til niðursveiflu kemur, verða engin „gólf“ til staðar hjá markaðslaunafólki, fyrirtækin borga bara það sem þau treysta sér til – sem er bæði gott og rétt út frá efnahagspólitísku sjónarmiði, en ekki alveg eins jákvætt fyrir launafólk.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021