Eins og fjallað var um hér í síðustu viku er útlit fyrir að sjónir heimsbyggðarinnar fari að beinast í stórauknum mæli til þess að kanna nánar uppruna veirunnar sem haldið hefur veröldinni í heljargreipum frá upphafi ársins 2020. Í vikunni birti New York Times grein eftir Zeynep Tufekci, en hún hefur getið sér gott orð fyrir framúrskarandi og sjálfstæða umfjöllun um faraldurinn frá upphafi hans.
Grein Tufekci gæti valdið ákveðnum straumhvörfum. Þótt hún taki ekki einarða afstöðu til þess hver sé líklegasta upprunaskýringin á faraldrinum, dregur hún sitthvað fram í dagsljósið sem óneitanlega vekur upp spurningar og vangaveltur. Hún segir meðal annars frá því, sem ekki hefur verið í hámæli, að alvarlegur faraldur inflúensu sem geisaði árið 1977–1978, þar sem um 700 þúsund manns dóu úr flensunni var líklega af manna völdum. Hið óvenjulega var að hún lagðist einkum á ungt fólk, á þrítugsaldri og yngra.
Hvað gerðist með flenusveiruna sem gekk 1977–1978? Ef marka má grein Tufecki komust vísindamenn að því að afbrigðið sem fór á flakk þann vetur væri keimlíkt þeirri útgáfu H1N1 veirunnar sem hafði gengið sem árstíðarbundin flensa á sjötta áratugnum. Þeir sem voru fæddir þá höfðu því áður komist í kast við veiruna og öðlast ákveðið ónæmi gegn alvarlegum veikindum. Flensuveiran hafði svo haldið áfram að þróast, eins og hún gerir ætíð, án þess að valda sérstaklega alvarlegum afleiðingum, og mótstöðuþrek fólks hélt áfram að aðlagast þannig að ný afbrigði flensuveirunnar urðu að jafnaði ekki svo skæð að það gæfi tilefni til sérstakra ráðstafana.
En gamla veiran sem skyndilega skaut upp kollinum árið 1977 reyndist semsagt skeinuhætt fyrir fólk sem hafði ekki lent í upprunalegu veirunni og nánustu afkomendum hennar.
Lengi vel átti vísindafólk erfitt með að skilja hvernig veiruafbrigði sem hafði áður dáið út í náttúrunni dúkkaði upp á ný með þessum hræðilegu afleiðingum. Tufecki greinir frá því að svarið við þessari spurningu hafi ekki komið fram fyrr en árið 2004 þegar veirufræðingurinn Peter Palese greindi frá því að kínverskur starfsbróðir hans, Chi-Ming Chu, hafi sagt honum frá því að veiruafbrigðið hafi sloppið út á ný þegar það hafði verið vísvitandi notað í rannsóknum á bóluefni.
Grein Tufecki segir frá fjölmörgum óhöppum sem orðið hafa í meðferð hættulegra efna á rannsóknarstofum víða um heim. Hún rekur einnig það sem vitað er um atburðarásina í Wuhan í upphafi faraldursins, til dæmis þá staðreynd að gagnagrunnar veirufræðistofnunarinnar voru teknir af netinu í september 2019, og að smitsjúkdómastofnun Wuhan var flutt á nýjan stað, nokkur hundruð metra frá markaðnum þar sem veiran komst fyrst á flug. Sá flutningur átti sér stað 2. desember 2019, um það bil á sama tíma og fyrsti „ofurdreifara“-viðburðurinn átti sér stað einmitt í grennd við nýju höfuðstöðvarnar. Ef veiran smitaðist milliliðalaust (eða milliliðalítið) frá leðurblökum til manna, vekur athygli að upphaflegi smitklasinn er staðsettur í nokkur þúsund kílómetra fjarlægð frá þeim stöðum þar sem sambærilegar veirur hafa fundist í náttúrunni, en nokkur hundruð metra frá rannsóknarstofum þar sem veirur eru geymdar.
Þegar fyrstu kenningarnar um að veiran hefði hugsanlega sloppið af rannsóknarstofu skrifuðu 27 vísindamenn grein í tímaritið Lancet og lýstu því sem „samsæriskenningu“ að uppruni faraldurins gæti verið eitthvað annað en náttúrulegur. Síðan þá hafa nokkrir af höfundum greinarinnar hafa skipt alfarið um skoðun.
Allt er þetta mál óskaplega viðkvæmt og eldfimt. Samkvæmt grein Tufecki er þó talið afar ólíklegt að SARS-Cov-2 veiran innihaldi erfðabreytingar sem hafi vísvitandi verið ræktaðar til þess að auka skaðsemi hennar. Mun líklegra er talið að vísindamenn hafi verið að vinna með veirur úr leðurblökum en vanmetið stórlega hættuna á því að fólk gæti smitast beint. Annars konar „leki“ á veiruefni gæti líka hafa átt sér stað.
Hvort sem sannleikurinn kemur einhvern tímann í ljós um upphaf þessa heimsfaraldurs, þá hlýtur það verkefni að blasa við að minnka líkur á að slíkt geti gerst. Viðamiklar rannsóknir, sem fela í sér geymslu á hættulegum veirum eða erfðabreytingar á þeim, virðast bjóða meiri hættu heim en þær afstýra. Hér þarf heimsbyggðin og vísindasamfélagið að líta mjög í eigin barm áður en haldið er áfram á þeirri braut sem við vorum á fyrir faraldurinn.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021