Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að veita almenna sakaruppgjöf vegna brota er varða vörslu og meðferð eiturlyfja til eigin nota.
Greinargerð
Markmiðið með þessari tillögu er að fela ríkisstjórninni að veita almenna sakaruppgjöf vegna brota er varða vörslu og meðferðr eiturlyfja til eigin nota. Þetta skal vera gert á grundvelli 29. gr. stjórnarskrár Íslands en þar segir m.a.: “[Forseti] náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka.”
Í samræmi við íslenska stjórnskipan fer ráðherra með umrætt vald. Í dag er algengasta fyrirkomulagið þannig að ráðherra náðar menn að tillögu náðunarnefndar. Aðrar leiðir eru hins vegar færar. Til dæmis má nefna að árið 1957 var veitt allmenn uppgjöf saka vegna atburðanna á Austurvelli 1949, þegar Ísland gekk í NATO.
Virk refsistefna
Meðferð og varsla ákveðinna ávana- og fíkniefna er bönnuð skv. 2. gr. laga 1974/65 um ávana- og fíkniefni. Samkvæmt afbrotatölfræði lögreglunnar er þarna um að ræða næststærstu stöku tegund afbrota, á eftir þjófnuðum. Í töflu hér að neðan má sjá fjölda brota í þessum málaflokki á undanförnum árum.
2011: 1239
2012: 1380
2013: 1725
2014: 1964
Tafla 1: Fjöldi brota í flokknum “Varsla og meðferð fíkniefna”. Heimild: Afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra 2014 – Bráðabirgðatölur.
Væntanlega enda ekki öll þessi mál með með kæru en þegar þessar tölur eru bornar saman við tölur fyrir kærða einstaklinga úr skýrslum lögreglu má að svo virðist sem flestar þeirra gera það. Það má því gera ráð fyrir að á undanförnum árum hafi 1-2 þúsund manns á ári verið kærðir fyrir neyslu fíkniefna. Flest þeirra mála enda væntanlega með sakfellingu viðkomandi.
Þetta er athyglisvert í því ljósi að stundum er því fleygt fram að Íslendingar hafi í raun þegar afglæpavætti fíkniefni. Vissulega kann það vera rétt að sjaldgæft sé að fólk hljóti fangelsisdóma einungis vegna neyslu eiturlyfja en engu að síður komast yfir 1000 manns á ári í kast við lögin vegna umræddra brota. Refsistefnan er því í fullu gildi.
Eitt annað verður að nefna. Þegar kemur fíkniefnabrotum má teljast líklegt að fjöldinn fari að einhverju leyti eftir frumkvæði lögregluyfirvalda, til dæmis þegar ákveðið er að beina sérstaklega spjótum að gestum ákveðinna tónlistarhátíða. Í því ljósi verður að teljast athyglisvert að framkvæmdarvaldið hafi, að því er virðist, aukið áherslu sína á umrædd brot þrátt fyrir að Alþingi hafi, vorið 2014 samþykkt þingsályktunartillögu þar sem sagði meðal annars:
“Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að innleiða nýja stefnu í vímuefnamálum þar sem horfið verði frá refsistefnu og byggt á lausnamiðuðum og mannúðlegum úrræðum, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.”
Hinn aukna harka þegar kemur að rannsókn fíkniefnabrota (vegna vörslu og neyslu) verður að teljast hæpin í ljósi þess vilja sem Alþingi hefur nýlega látið í ljós.
Siðferðisleg rök styðja uppgjöf saka
Markmiðið með núverandi refsistefnu er væntanlega að letja fólk til neyslu með hótunum um væntanlega refsingu. Sú stefna virðist varla vera að skila tilætluðum árangri.
Staðan er síðan þessi:
- verulegur hluti Ísleninga hefur neytt ólöglegra eiturlyfja (þ.m.t. sitjandi þingmenn og ráðherrar, ef marka má þeirra eigin yfirlýsingar) og
- verulegur (en þó mun fámennari) hluti Ísleninga hefur komist í kast við lögin vegna slíkrar neyslu.
Fólkið í síðari hópnum er látið taka á sig sök vegna meintrar skaðsemi ákveðinnar hegðunar á samfélagið allt. Ferða – og atvinnumöguleikar þessa fólks skerðast, meðan aðrir sem sluppu þurfa engar byrðar að bera. Slíkt getur varla talist sanngjarnt sérstaklega þar sem þeir sem neyta fíkniefna eru í langoftast að valda sjálfum sér skaða en ekki öðrum.
Ef afglæpavæða á neyslu eiturlyfja, vegna breyttra viðhorfa samfélagsins, er með sama hætti rökrétt að afglæpavæða fyrri afbrot. Það er einfaldlega rétt að gefa þeim einstaklingum sem þegar hafa hlotið dóma vegna neyslu og vörslu fíkniefna upp sakir og losa þá þannig undir þeirri byrði slík afbrotasaga kann að hafa í för með sér. Ef við lítum ekki lengur á fíkniefnaneytendur sem glæpamenn þá eiga okkar opinberu skrár að endurspegla það.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021