Það er kúkableia. Þú tekur annan tvíburanna þinna og leggur hann í sófann. Þú skiptir um bleiuna á meðan barnið berst á móti. Þú ert Steve Irwin að glíma við krókódíl. Þú leitar í kringum þig að leikfangi til að láta barnið fá, til að ræna athygli þess í nokkrar sekúndur á meðan þú klárar það versta við bleiuna. Á meðan er hinn tvíburinn að skríða um gólfið og gera sig líklegan til að fara inn á klósett til að ná klósettburstanum. Ekki nóg með það, heldur er tveggja ára strákurinn þinn búinn að stafla hönnunarbókunum upp í hægindastólnum og gerir sig líklegan til að setjast ofan á bunkann.
Já kallinn minn, þú notaðir ekki smokkinn og ert að súpa seyðið af því. Splæstu í barn númer þrjú, sögðu þeir. Þú munt sjá eftir því eftir 10 ár að hafa ekki gert það, sögðu þeir. Og svo komu bara tvíburar. Engin fordæmi fyrir því í fjölskyldunni, hvorki hjá þér né konunni þinni. Þetta er eins og ef tunglið myndi lenda í áttunda húsi vatnsberans — á sama tíma og mannkynið lendir á því í fyrsta skiptið í 38 ár. En þetta er núna verkefnið þitt. Þú kemst upp á lagið með þetta. Það var erfitt að eignast barn númer eitt, svo vandistu því. Barn númer tvö var líka áskorun en svo vandistu því. Þú munt komast upp á lagið með að eiga tvíbura líka.
En hvað er í matinn? Já, þetta samtal þarftu að eiga við konuna þína í dag. Þú ræddir þetta við hana í gær líka, og daginn þar áður. Svo áttu eftir að lesa heima með sjö ára frumburðinum. Og svo áttu eftir að baða allt liðið. Þú vonast til að eiga góðar 25 mínútur með konunni þinni í kvöld þar sem þið horfið saman á gamanþátt áður en þú ferð að sofa. En fyrst þarf að ræða heimsins gagn og nauðsynjar að ósk barnanna sem eiga þó að vera farin að sofa og jafnvel vera sofnuð.
Í dag muntu leysa af hendi þúsund verkefni. Öll heimsins tónlist er í seilingarfjarlægð, á Spotify. Má bjóða þér að bæta þeim ákvörðunum við að velja tónlistina sem þú hlustar á, á meðan? Skipta um tónlist á svona 12 mínútna fresti af því að þú ert ekki alveg að fíla það sem er í gangi hverju sinni? Já nei, sama og þegið. Ég kveiki á Gullbylgjunni. Ég vil láta mata þetta ofan í mig. Ég sætti mig við þokkalega sæmilega tónlist sem er mötuð ofan í mig, í stað tónlistar sem ég fílaði í upphafi en er orðinn hundþreyttur á.
Að sama skapi sakna ég stundum línulega sjónvarpsins – langar til að hafa þetta matað ofan í mig. Það leiddi stundum til þess að ég rambaði á snilld. Á tímum þúsund ákvarðana er gott að eiga góða dagskrárstjóra að, sem ákveða skemmtunina fyrir mig.
- Hugleiðingar mónógamista - 28. maí 2021
- Við erum öll Samgöngustofa - 24. mars 2021
- Konráð hjá Deiglunni hér - 8. janúar 2021