Þinglokaþokan

Af hverju er það svona nauðsynlegt að ljúka störfum þingsins mörgum vikum áður en almennur vinnumarkaður byrjar að huga að sumarleyfi og þegar vitað er að þingið mun ekki hefja störf á ný fyrir í fyrsta lagi 2 mánuðum eftir að hinn almenni launamaður snýr aftur til vinnu?

Þegar endamarkið nálgast í starfsáætlun Alþingis hvert vor þá fer af stað atburðarás sem er eiginlega ekki hægt að útskýra. Nauðsyn þess að semja að þinglok verður öllum öðrum sjónarmið yfirsterkari. Svo er tilkynnt hátíðlega að samningar hafi náðst um þinglok. Samningar um hvað?

Jú, það tókst að ljúka störfum þingsins. Húrra, húrra, húrra.

Af hverju er það svona nauðsynlegt að ljúka störfum þingsins mörgum vikum áður en almennur vinnumarkaður byrjar að huga að sumarleyfi og þegar vitað er að þingið mun ekki hefja störf á ný fyrir í fyrsta lagi 2 mánuðum eftir að hinn almenni launamaður snýr aftur til vinnu?

Fyrir utan hið klassíska svar að það er auðvitað best að Alþingi sitji sem skemmst vegna þess að þaðan kemur fátt nema auknar álögur og meiri afskipti af lífi okkar hinna, þá er svarið við þessari spurningu algjörlega á huldu. Eða í það minnsta í þoku.

Hin lýðræðislegu úrræði stjórnarandstöðu þýða auðvitað að stundum þarf að semja um framgang mála og jafnvel þarf þingmeirihlutinn að velja og hafna úr eigin málum. En hinn ofboðslegi þrýstingur að ljúka störfum þingsins bjagar auðvitað eðlilegan framang slíkra málamiðlana.

Svo kvarta allir þingmenn yfir því að ekki hafi náðst að klára þetta og hitt, hvort sem þeir koma úr stjórn eða stjórnarandstöðunni. En ef þeir ráða þessu ekki, þingmennirnir sem við kusum, hver ræður þessu þá?

Það er auðvitað löngu tímabært að breyta þessu og að þingið sitji stærri hluta ársins en nú er raunin. Hin langa frestun þingfunda var eðlileg í samfélagi þar sem samskipti og samgöngur voru af allt öðru eðli en við eigum að venjast í dag.

Ef við á annað borð teljum að það sé eitthvað vit í því að þing sé starfandi þá eigum við að hætta þessari þingalokavitleysu á vorin og miða frekar við að þingið starfi að jafnaði en þó að teknu tilliti til jóla- og sumarleyfa sem eru í takti við önnur störf sem fólk vinnur í þessu landi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.