Um líkama minn fór hrollur þegar ég horfði á kvöldfréttir í síðustu viku. Dönsk stjórnvöld hafa tekið fordæmalausa ákvörðun um að senda tæplega 200 Sýrlendinga, sem eru í landinu á tímabundnu dvalarleyfi, aftur til Sýrlands. Ástæðan þeirra er að nú sé ástandið þar orðið mikið betra og því kominn tími til að þau snúi aftur til sinna fyrri heima. Til viðbótar við þessa 200 flóttamenn eru um 500 manns í mati hjá yfirvöldum um hvort þau fái að halda leyfi sínu eða hvort þau skuli fara aftur til Sýrlands. Svo virðist sem sýrlenskir karlmenn verði ekki sendir til baka því talið er að þeir verði skipaðir í herinn og því ekki öruggt fyrir þá að snúa til baka. Dönsk stjórnvöld ætla því að senda konur og eldra fólk.
Danmörk á ekki í beinu stjórnmálasambandi við Sýrland og geta dönsk stjórnvöld því ekki brottvísað fólki alla leið. Þau sem neita að fara sjálfviljug aftur til Sýrlands eru sett í það sem við myndum eflaust kalla einhvers konar flóttamannabúðir á meðan beðið er eftir flutningi. Þau sem þekkja til segja þó að búðirnar minni frekar á fangelsi. Í fréttum RÚV var sýnt viðtal við unga konu sem var stúdent frá dönskum skóla og hafði hafið nám í hjúkrunarfræði þar í landi. Hún hafði nýtt tímann sinn í Danmörku vel og vildi búa þar áfram. Þessi kona fær ekki að klára námið sitt og skal annað hvort fara sjálfviljug aftur til stríðshrjáðs Sýrlands eða dvelja í þessum búðum þangað til að dönsk yfirvöld finna leið til að senda hana löglega úr landi.
Sýrland er langt frá því að vera öruggt land, á þetta hafa Sameinuðu þjóðirnar bent. Dönsk yfirvöld taka hér af skarið fyrst Evrópuríkja og senda Sýrlendinga til baka úr öruggu samfélagi í stríð. Innviðir eru mikið laskaðir eftir áratug af átökum, vatn og rafmagn er ekki að finna alls staðar og matvælaverð hækkaði um 230% á síðasta ári.
Pólitíkin í Danmörku hefur hreyfst mikið á síðustu misserum. Það er sorgleg þróun að hræðsla danskra jafnaðarmanna við hægri öfgaöfl sé slík að þau herði útlendingastefnuna sína langt umfram það sem áður var. Þetta er beinlínis hættulegt. Þegar stjórnmálamenn hætta að standa með grunngildum sínum til þess að fá nokkur auka atkvæða þá er voðinn vís. Þá gerist svona harmleikur, þá hverfur mennskan.
Vinur er sá sem til vamms segir. Ég tel það skyldu okkar Íslendinga að segja okkar dönsku frændum, Min ven, nej sådan gør du ikke!
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021