Gætu herdeildir Sameinuðu þjóðanna tekið völdin fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir sigur Donalds Trump? Er covid-19 uppskáldaður gervisjúkdómur? Stundar valdaelítan í Demókrataflokknum rán og misþyrmingar á börnum? Er valdamikið fólk í Hollywood samsekt í þeim glæpum? Drekka þessi ómenni blóð úr börnum?
Með örlítilli heimildavinnu á netinu er hægt að finna margvíslegar vísbendingar um að allt hið ofantalda eigi við rök að styðjast. Reyndar eru heimildirnar fyrir þessum kenningum ekki almennt séð álitnar traustar, enda er varla við því að búast þar sem hefðbundnir fjölmiðlar og fræðaheimurinn væru hvort sem er hluti af samsærinu gegn sannleikanum ef þetta væri allt saman satt.
Trú á fjarstæðukenndar samsæriskenningar virðist fara hratt vaxandi í Bandaríkjunum. Nýleg skoðanakönnun meðal stuðningsmanna Repúblikanaflokksins leiddi í ljós að um þriðjungur taldi samsæriskenningar um tilurð covid-19 sjúkdómsins vera að mestu leyti sannar, en um 26% taldi þær sannar að einhverju leyti. Reyndar var könnunin framkvæmd af fyrirtæki sem er vilhalt málflutningi Demókrata. Þannig að það er ekki óhugsandi að könnunin hafi verið hönnuð með það í huga að gefa sem sturlaðasta mynd af Repúblikönum.
Það segir auðvitað sína sögu að tímartið Time skuli greina sérstaklega frá því að gögn úr skoðanakönnun eigi uppruna sinn hjá fyrirtæki sem er „left-leaning.“ Þannig fyrirvarar eru því miður að verða sífellt nauðsynlegri þegar reynt er að leggja mat á efni sem sett er fram í búningi frétta í Bandaríkjunum.
Á síðustu árum hefur verið grafið svo rækilega undan þeirri trú að til séu óvilhallir fjölmiðlar—að það er nánast ekki til neins að þykjast reyna. Hægri fjölmiðlarnir (einkum Fox News) fóru fyrstir af stað og börðu sér á brjóst fyrir að láta hefðbundinn metnað um vandaða fjölmiðlun lönd og leið. Rökin voru einhvern veginn þannig að allir hefðu skoðanir og því væri blaðamennska „vönduðu“ fjölmiðlana í raun og veru bara vel dulbúinn áróður. Með tímanum virðist sem margir þeirra fjölmiðla sem áður vildu síður láta flokka sig sem áróðurstól (til dæmis NY Times) hafi einfaldlega gefist upp fyrir tíðarandanum.
Fyrir vikið hefur traust á bandarískum fjölmiðlum orðið að nánast engu—og á það bæði við um traust almennings á fjölmiðlum og sjálfstraust fjölmiðla til þess að horfa óhlutdrægt á málefni líðandi stundar. Skinhelgi frjálslyndu fjölmiðlanna og nánast algjört skeytingarleysi margra hægri miðla um hefðbundin gildi blaðamennskunnar, hafa saman leitt til þeirrar niðurstöðu að bandarískir fjölmiðlar eru flestir orðnir algjörlega úrkynjaðir og ótraustir. Í slíkum aðstæðum er óhjákvæmilegt að fólk leiti annað; og þá eiga fjarstæðukenndar samsæriskenningar greiða leið að umtalsverðum hluta almennings.
Sá metnaður er orðinn sjaldgæfur, sem eitt sinn þótti einkenna gott fjölmiðlafólk, að geta leitað sannleikans, gætt sanngirni og geta sett réttindi og þarfir lesenda í öndvegi umfram eigin skoðanir. Gott fjölmiðlafólk getur ekki annað en haftsterkar skoðanir. En það er mikill munur á því að hafa skoðanir annars vegar og að vera hlutdrægur hins vegar. Við sjáum nú í Bandaríkjunum dæmi um hvað getur gerst þegar fjölmiðlar, bæði gervimiðlarnir og þeir sem hingað til hafa þótt vandaðir, valda ekki lengur hlutverki sínu.
Skilningur á hlutverki fjölmiðla í samfélaginu og sjálfstæður metnaður fyrir góðri blaðamennsku í þágu lesenda og samfélagsins eru meðal þess verðmætasta sem standa þarf vörð um í lýðræðislegu mannréttindaþjóðfélagi. Annars er voðinn vís.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021