Hvort sem er í pólitík eða rekstri þykir flott að vera með framtíðarsýn, helst til margra ára. Ef einhver leggur til aðgerðaráætlun til næstu 8 ára má gera ráð fyrir að einhver stökkvi til og lofi stefnumótun til næstu 100. Og verði sjálfkrafa álitinn 12,5 sinnum gáfaðri…
En þó það sé ágætt að vita hvert ferðinni sé heitið þá er ég ekki alltaf sannfærður um að ítarlegar framtíðarsýnir til næstu áratuga séu málið. Tökum okkur sjálf sem dæmi. Erum við viss að við sjálf, hvert og eitt okkar, séum á þeim stað sem við stefndum að fyrir 15 árum?
Ég sjálfur sá mig örugglega fyrir mér kennandi og rannsakandi stærðfræði í einhverjum háskóla. Það plan klikkaði, en eftirá að hyggja, fyrst og fremst vegna þess að ég nennti þessu ekki. Ég-árið-2004 og ég-árið-2019 vorum ekki sammála um hvað ég-árið-2019 ætti að gera. Á endanum getum við ekki skipað framtíðar-okkur fyrir. Þau munu bara ráða þessu sjálf.
Ef erfitt er halda plani þar sem við sjálf erum einu leikendurnir, hvernig getum við vonast eftir að plön haldi sem hvíla á því að eitthvað allt annað fólk í framtíðinni geri eins og við segjum? Þó svo að ég myndi gjarnan vilja að fólk byði sig fram í kosningunum 2052 með það helst að markmiði að uppfylla 30 ára gamla sýn mína á borgarmálin þá er líklegra að það fólk muni bjóða sig fram með eigi stefnumál, áherslur og sýn.
Þótt án efa megi finna dæmi um áratugagamla sýn sem gengið eftir hefur þá held ég að hitt sé heldur algengara.
Stundum notar fólk metnaðarfulla framtíðarsýn sem eins konar sjálfsblekkingu. Fólk setur sér háleit framtíðarmarkmið en vanrækir nútímann. Stundum er betra að nota bara „to-do“-aðferðina. Gera lista yfir tíu einfalda, áþreifanlega hluti sem gagnlegt væri að klára. Velja þann gagnlegasta eða auleysanlegasta og klára hann. Halda svo áfram koll af kolli. Gera gagn. Bæta heiminn aðeins í litlum mælanlegum skrefum.
Og ekki láta úrtölufólk með metnaðarfullar framtíðarsýnir draga mann niður.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021