Flest erum við hrædd við það sem við ekki sjáum. Og fátt hræðumst við meira en að einhver sjái það hjá okur sjálfum það sem enginn sér. Í baráttunni við farsótt erum við að kljást við okkur sjálf um leið. Hræðsla hjarðarinnar gerir einstaklingana veika og býr þannig til tækifæri fyrir hina valdasæknu. Í hysteríunni sameinast þeir sem ofhugsa alla hluti og hinir sem ekki hafa burði til að skilja eitt eða neitt.
Þegar upp verður staðið munum við sennilega hafa lært meira um okkur sjálf sem einstaklinga og samfélag heldur þessa kórónuveiru sem tröllríður heimsbyggðinni, þó aðallega þegar kemur að fordæmalausum viðbrögðum þeirra sem með ráðin fara.
Einhvern tímann var gagnrýnin hugsun talin aðalsmerki hins menntaða manns. Í dag eru allir sprenglærðir með einum eða öðrum hætti, vitneskjan um alla skapaða hluti liggur í hvers manns ranni og ef ekki, þá er hún innan seilingar. Gagnrýnin er til staðar og hugsunin að einhverju leyti en í alltof fáum tilvikum fer þetta tvennt saman.
Á svona tímum þurfum við styrk og styrkurinn býr ekki í samfélaginu, það er það fyrsta sem fer á taugum. Styrkurinn býr í einstaklingunum, hverjum og einum, og það sem mestu skiptir, í þeim sem veita eiga forystu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021