Mörgum gengur óendanlega illa að skilja muninn á þjóðareign og ríkiseign. Lengi vel mátti hér á landi finna svæði sem enginn átti og allir áttu, almenning. Víða annars staðar var litið svo á að það sem enginn ætti, það ætti kóngurinn, ríkið. Almenningur var svo dásamlegt fyrirbæri, ríkið átti ekkert í því, allir áttu það og enginn átti það.
Eignarréttur er gríðarlega mikilvægur og gild rök eru fyrir því að án friðhelgi hans séu efnahagslegar framfarir næsta ómögulegar. Skráning eignarréttindi er forsenda þess að hægt er að veðsetja eignir og koma þannig hreyfingu á fjármagnið sem bundið er í eigninni.
Eignarlönd bænda eru nærtækt dæmi, jarðir sem hæfar eru til veðsetningar ættu í öllum venjulegum kerfum að koma hreyfingu á fjármagnið sem í þeim er bundið. Í íslenska landbúnaðarkerfinu er þetta lögmál úti á túni eins og svo mörg önnur. Bændur höfðu nutu líka réttinda á svokölluðum afréttum, oftast á grundvelli hefðar, og höfðu þannig not af beitarlandi.
Þar fyrir utan var svo almenningur, óbyggðirnar. Það sem allir áttu og enginn átti. Með þjóðlendulögunum var þessu fyrirbæri komið fyrir kattarnef. Mönnum þótti svo mikilvæg að skýra eignarmörk gagnvart hinum raunverulegu eignarlöndum, hvort sem þau lönd voru í einkaeign eða svokallaðar ríkisjarðir. Svo komu sveitarfélögin inn í þetta, þau þurftu auðvitað að hafa eitthvað um málin að segja.
Skyndilega varð hið dásamlega réttarástand, almenningur, að eignarlandi hins opinbera með einum eða öðrum hætti. Landið hætti að tilheyra þjóðinni og tilheyrði nú ríkissjóði eða sveitarfélögum. Framkvæmdavaldið í landinu fékk þannig í hendurnar gríðarlega mikil völd og áhrif, á kostnað fólksins, þjóðarinnar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021