Góðum tíðindum rignir inn þessa daganna. Svo mikið reyndar að margar þeirra fljóta fram hjá án þess að eftir þeim sé tekið. Eftir rúmlega ár af lokunum, hömlum, hræðslu og almennum þrengingum höfum við ekki undan að lesa um metdaga í bólusetningum, hækkunum í kauphöllinni og skemmtilega pirruðum gömlum körlum með sterkar skoðanir á rafskútum.
Engu minni gleði er að fylgjast með tónlistarfólki og íþróttafólki sína listir sínar fyrir margmenni. Veit höfundur af góðum hópi sem er að fara í kvöld, föstudagskvöld, á stjórnartónleika í Hafnarfirði. Hvað er gleðilegra en stjórnartónleikar á fallegu júlíkvöldi?. Svo er Símamótið í fullum gangi þar sem framtíðarstjörnur kvennaboltans keppa í fótbolta, andlitsmálningu og liðssöngvum. Erfitt er að meta hvort stúlkurnar eða foreldrarnir hafi meira gaman af þessu frábæra fótboltamóti.
Við slíkan stífan straum af gleðifréttum geta aðrar farið undir radarinn. Vinnumálastofnun birti í dag mánaðarlega skýrslu sína þar sem fram kom að annan mánuðinn í röð er met sett í fækkun atvinnulausra milli mánaða. Hefur fjöldi atvinnulausra fækkað um 6.700 síðan í lok mars, en það jafngildir að allir íbúar Seltjarnarnes að viðbættum öllum dalvíkingum hafi fundið nýtt starf í kjölfar atvinnuleysis.
Ljóst er að mikill fjöldi mun finna sér starf yfir sumarmánuðina, bæði vegna árstíðarbundinna sveiflna og fjölgunar ferðamanna í landinu. Má jafnvel gera ráð fyrir því að fjöldi atvinnulausra gæti verið kominn á svipaðan stað og fyrir Covid-19 strax á haustmánuðum en þeirri stöðu hefur Norðurland eystra þegar náð.
Megi þetta sumar vara sem lengst.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021