Efnahagslægðin hefur afhjúpað ókosti þess að byggja afkomu heillar borgar á aðeins einni atvinnugrein – ferðaþjónustu”. Svohljóðandi voru ummæli Jori Rabassa, borgarfulltrúa Ciutat Vella, mest heimsótta borgarhluta Barselóna. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur leikið Barselónaborg grátt, enda ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugrein borgarinnar. Varanlegar lokanir verslana og þjónustufyrirtækja hafa sett mark sitt á svæðið.
Ferðaþjónustan er ekki síður mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík. Fjöldi fólks sækir atvinnu til fjölbreyttra ferðaþjónustufyrirtækja og hefur yfirstandandi heimsfaraldur auðsjáanlega ógnað afkomu fjölda heimila. Víða í miðborg Reykjavíkur má sjá opin sár ferðaþjónustufyrirtækja eða minjagripaverslana sem lagt hafa upp laupana.
Ramblan í Barselóna er ein þekktasta miðborgargata Evrópa. Gatan hefur um árabil verið einstakt aðdráttarafl fyrir fjölda ferðamanna – en samhliða hafa íbúar borgarinnar verið áhugalausir um svæðið. Heimamenn leita á önnur mið eftir verslun, menningu og þjónustu. Illa hefur gengið að samræma þarfir Barselónabúa og ferðamanna við miðborgargötuna.
Einhverjir hafa sömu sögu að segja af miðborg Reykjavíkur. Undanfarin ár hafa borgarbúar kvartað sáran undan ágangi ferðamanna í miðborginni. Verslunarrými fyllist af minjavöruverslunum og þjónustufyrirtækjum fyrir ferðamenn. Þeim fjölgar sem segjast ekkert erindi eiga í miðborgina af þessum sökum. Sitt sýnist auðvitað hverjum.
Í kjölfar yfirstandandi heimsfaraldurs hefur Barselónaborg ákveðið að snúa vörn í sókn. Nú þegar ferðamenn sækja borgina ekki heim er fyrirhugað að endurskipuleggja hina rótgrónu Römblu með þarfir Barselónabúa í huga. Standa áform borgarinnar til að gera Römbluna að gróskumikilli miðstöð menningar og lista – fjölbreyttri miðborgargötu með hvers kyns verslun og þjónustu sem íbúar vilja sækja heim. Með aðgerðunum hyggjast borgaryfirvöld vera öðrum erlendum borgum fyrirmynd – fyrirmynd þeirra sem vilja sjá tækifærin í lægðinni.
Nú þegar fækkun ferðamanna hefur sett mark sitt á Reykjavíkurborg er tilvalið að endurhugsa miðborgina með þarfir íbúa í huga. Svæðið þarf að þróa sem áfangastað bæði íbúa og ferðamanna – svæði sem þjónar þörfum ferðaþjónustu og borgarbúa – aðdráttarafl sem auðgar líf bæði innlendra sem erlendra gesta. Tækifærið er núna.
- Hjólaborgin - 16. júní 2021
- Brúarsmíði í borginni - 18. maí 2021
- Eftir hverju erum við að bíða? - 14. apríl 2021