Í morgun voru birtar tölur um hagvöxt í Kína fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs. Samkvæmt þessum tölum óx kínverska hagkerfið um 9.9% á ársgrundvelli nú í vetur. Þessi ótrúlega hraði vöxtur var talsvert fyrir ofan væntingar flestra og þar að auki hraðasti vöxtur kínverska hagkerfisins í yfir þrjú ár.
Á undanförnum árum hefur Kína verið helsti vaxtarbroddur heims-hagkerfisins. Á meðan stóru hagkerfi heimsins, Bandaríkin, Evrusvæðið og Japan, hafa staðið á sér hefur kínverska hagkerfið haldið áfram að bruna áleiðis inn í hóp þróaðra hagkerfa.
Margir á vesturlöndum hugsa enn um Kína sem kommúnistaríki. Slíkur hugsanaháttur er algerlega úreltur. Það er reyndar rétt að samtökin sem stjórna landinu kenna sig enn við kommúnisma. En kommúnismi er ekki á neinn hátt stundaður í Kína í dag, nema ef til vill að því leyti að fólk hefur lítið sem ekkert stjórnmálafrelsi.
Efnahagsumbótunum sem staðið hafa yfir í Kína síðan 1978 hefur fleygt svo mikið fram að kínverska hagkerfið er í dag að mörgu leyti nær því að vera frjálst markaðshagkerfi en sum hagkerfi í Evrópu. Þannig er vinnumarkaðslöggjöf í Kína mun frjálslegri en í flestum vestrænum löndum. Í Kína eru til dæmis engin lágmarkslaun og litlar sem engar reglugerðir sem hefta frelsi fyrirtækja til að ráða fólk og reka. Annað dæmi er að kínverska ríkið er nú að koma á kerfi í lífeyrismálum sem svipar mjög til þess kerfis sem Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum berst fyrir þar í landi.
Innganga Kína í Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) hefur gert það að verkum að Kína hefur þurft að breyta löggjöf sinni varðandi atvinnurekstur til samræmis við það sem gerist á vesturlöndum. Nú verða til dæmis öll fyrirtæki í Kína, einkarekin og ríkisrekin, að sitja við sama borð hvað löggjöf snertir. Kínverska ríkið skuldbindur sig einnig með inngöngu í WTO til þess að virða lögmál markaðarins á margan hátt, t.d. að leyfa framboð og eftirspurn að mynda verð á flestum vörum.
En það eru ekki aðeins fyrirtæki sem eru frjálari í dag en þau voru fyrir nokkrum áratugum. Einstaklingsfrelsi hefur einnig aukist gríðarlega. Í eina tíð stjórnaði ríkið nánast öllu sem skipti máli í lífi fólks. Það ákvað hverjir mættu ganga í menntaskóla og háskóla og hvaða greinar þeir ættu að nema. Það ákvað síðan hvar hver og einni átti að vinna og svo framvegis. Í dag er allt þetta fyrir bí. Fólk ákveður sjálft hvort það vill fara í skóla og hversu lengi. Ríkið skiptir sér heldur ekki af því hvaða atvinnu fólk velur. Frelsi til búfluttninga hefur einnig aukist til muna og svo framvegis.
Eitt af því sem ber vott um að skortur á frelsi sé ekki lengur nærri því jafn íþyngjandi og hann var fyrir nokkrum áratugum er að á síðust árum hafa kínverskir stúdentar á vesturlöndum í auknum mæli kosið að hverfa aftur til Kína að loknu námi. Nú er svo komið að lang flestir Kínverjar sem leita sér menntunar á vesturlöndum kjósa að fara heim að loknu námi.
Það er því óhætt að segja að sá gríðarlegi skortur á frelsi í Kína sem fólki á vesturlöndum er tíðrætt um sé á hröðu undanhaldi. Og sem betur fer.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009