Ég sveifla sverðinu af öllu afli en það dugar ekki til. Hann nálgast óðfluga og svo allt í einu, þarna í niðamyrkrinu, gerir hann atlögu. Svarthöfði sjálfur. Ég æpi af hræðslu. Svo hátt að mér bregður eiginlega sjálfri. En svo verður allt svart.
Ég tek af mér klunnalegu gleraugun og fæ ofbirtu í augun. Lít vandræðilega í kringum mig en sé að mannmergðin liðast áfram án sjáanlegra viðbragða. Ég stími því inn í næstu H&M og kaupi nærbuxur á börnin. Eins og ekkert hafi í skorist. Hjartað berst þó enn í brjósti mér eftir bardagann. Jafnvel enn í dag þegar ég hugsa um þetta.
Hér er um að ræða sanna sögu af sýndarveruleikareynslu. Í þessu tilfelli, frá þátttöku í leik sem gefinn var út í tilefni nýju Stjörnustríðsmyndarinnar. Ég er almennt frekar afundin slíkum leikjum en sló til með fjölskyldunni í verslunarmiðstöð á sunnudegi. Eftir það var ekki aftur snúið. Áhugi á sýndarveruleika var kviknaður. Ekki þó á fleiri bardögum við Svarthöfða, heldur því hvernig nota má tæknina í miðlun og menntun.
Þótt sýndarveruleiki sé langt frá því fullkominn benda rannsóknir til að að hann geti hann hjálpað til við að efla samhug eða hluttekningu og hvatt okkur til að læra. Sett okkur í umhverfi sem er nær raunveruleikanum en texti í bókum. Skapað hálfgerða „gervi reynslu” sem höfðar betur til tilfinninga og kjarna okkar: Mennskunnar. Það eru einmitt mannlegu þættirnir -mennskan sjálf- sem fá okkur til að tengjast málefnum og vilja gera breytingar þeim í vil.
Mörg málefni eru þess eðlis að við eigum erfitt með að tengjast þeim. Loftslagsbreytingar eru ágætt dæmi. Því hugtaki fylgir hafsjór af tölum; gráður, ferkílómetrar af ís og margra metra hækkun sjávarborðs. Hvað þýðir þetta eiginlega? Stundum væri gott geta skoðað hlutina í beinni og skynjað áhrifin á ólíkum svæðum. Það krefst þó ferðalaga sem eru ekki á færi allra. Þau kosta peninga og ferðalög auka jú mengun.
Hér er snallt að nýta tæknina . Að „ferðast“ til nýrra staða, í gegnum sýndarveruleika. Að virkja „sýndar-mennskuna“ til að dýpka skilning og umhyggju – og auka þar með möguleika á breytingum. Margt er þegar í pípunum á þessu sviði. Umhverfisáæltun Sameinuðu Þjóðanna hefur þegar hafið samvinnu við PlayStaytion á sviði sýndarveruleika til að hjálpa fólki að upplifa kolefnisspor sitt. Í sumar gerðum við okkar eigin tilraun í Boston og streymdum kennslu frá jöklum á Íslandi. Nemendur frá ólíkum heimshornum sáu breytingar og ferðuðust með. Áhrifin voru sterk og upphafið af frekari þróun í þessa átt. Tækifærin með tækninni virðast endalaus. Hér drýpur smjör af hverju strái.
Í stærra samhengi má því velta fyrir sér hvort við getum elft hluttekningu og skilning þvert á málaflokka með því að virkja „sýndar-mennskuna“ með skapandi hætti. Þannig mætti takast á við erfið mál með betri árangri en undirrituð gerði í bardaganum við Svarthöfða um árið.
- Sýndarmennskan og Svarthöfði - 27. janúar 2021
- Skrifað í stjörnurnar - 26. nóvember 2020