Um vorið 1999, þegar ég var aðeins sex mánaða gamall, flutti ég ásamt foreldrum mínum og eldri systur úr Vesturbæ Reykjavíkur og í Grafarvoginn, þar sem ég svo ólst upp. Vafalaust fluttu foreldrar mínir aðallega til að koma stækkandi fjölskyldu betur fyrir í stærri íbúð en ég hef lengi heyrt þau nefna aðra ástæðu fyrir flutningunum: Sundabraut.
Þegar ég fæðist eru enda umræður um fyrirhugaða Sundabraut í algleymingi og aðeins formsatriði sem standa í vegi fyrir því að hún rísi. Nú 23 árum seinna er hún ekki enn risin en blikur eru þó á lofti, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra vill að framkvæmdir hefjist þegar í stað við gerð 30m hárrar Sundabrúar. Foreldrar mínir geta tekið gleði sína á ný.
Ég gleðst hins vegar frekar yfir öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum, ekki að ég sé endilega á móti byggingu Sundabrúar, þvert á móti. Ég er nefnilega mjög spenntur fyrir lagningu borgarlínu. Ég á ekki bíl og fer flestra ferða minna í strætó, gangandi eða á nýtilkomnum rafmagnshlaupahjólum. Og af hverju á ég ekki bíl? Tja, í fyrsta lagi er dýrt að eiga bíl og svo vil ég bara ekki þurfa þess. Það er óþolandi að búa í borg þar sem maður nánast verður að eiga bíl.
Þess vegna leiðist mér orðræða sumra sem segja að sífellt sé verið að þrengja að einkabílnum. Þeir kvarta sáran undan göngugötum, hjólastígum og akreina- og bílastæðaskorti. Ég vildi gjarnan segja við hvern þann sem svona talar: Hefurðu prófað að eiga ekki bíl, þó það sé ekki nema í viku? Hefurðu prófað að þurfa að labba innan um alla hina bílana og þurfa jafnvel að bíða eftir strætó nálægt risastórum, skítugum stofnbrautum? Hefurðu reynt að tala í símann eða hlusta á hlaðvarp á meðan þú gengur framhjá Kringlumýrarbraut? Hefurðu fundið lyktina sem er nálægt stærri stofnbrautum og séð ruslið í kringum þær? Hin einna sanna aðför er ekki að einkabílnum, heldur að þeim sem ekki eiga einkabíl.
Svo eru aðrir sem tala um að alltaf sé verið að neyða alla til þess að hjóla eða ganga. Marga bara langi ekki að hjóla eða ganga og svo séu margir sem hreinlega bara geta það ekki. Þetta fólk áttar sig ekki á því að ef almenningssamgöngur eru efldar þá verða fleiri sem nýta sér þær og sleppa því að nota einkabílinn. Það þýðir aðeins eitt: meira pláss fyrir þá sem ennþá vilja bara keyra um á einkabíl.
Ég hef ekkert á móti bílum, alls ekki. Ég horfi m.a.s. oft á Top Gear. En ég vil helst geta sleppt því að eiga bíl – vil helst búa í borg þar sem ég þarf þess ekki. Þess vegna er ég kannski einn allra harðasti stuðningsmaður fyrirhugaðrar Sundabrúar, af þeim sem vilja ekki keyra um hana. Ég vona nefnilega að peningum verði ausið í að gera þetta að flottasta umferðarmannvirki í Evrópu. Helst vil ég sjá tugum ef ekki hundruðum milljarða varið í þetta verkefni núna strax og að Sundabrú rísi núna strax.
Því þá sé ég með eigin augum að svona stór verkefni virkilega geta orðið að veruleika hérna í borginni. Og þá get ég loksins sannfærst um að borgarlínan hljóti e.t.v. ekki sömu ömurlegu örlög og Sundabrautin – framkvæmdir alltaf bara alveg að hefjast, í 23 ár.
- Mexíkósk langa, rjómalöguð Mexíkósúpa, brauð og salatbar - 23. júlí 2021
- Opið bréf til lyfjafræðinga sem kunna ekki að telja - 15. júní 2021
- Graði-Rauður - 17. apríl 2021