Það er fátt sem jafnast á við að ferðast í íslenskri náttúru. Við leitum að hinni fullkomnu sumarnótt þar sem frískleikinn er allsráðandi, hafflöturinn spegilsléttur og einstaka ský á lofti sem endurkasta síðustu birtu dagsins í stuttri dýfu sólarinnar undir sjóndeildarhringinn. Loftið er kalt en samt svo ferskt. Ró færist yfir, andadrátturinn verður aðeins dýpri og af og til eru lungun fyllt til að upplifa umhverfið til fulls. Þó að það sé svalt gerir birtan og fegurðin það að verkum að við ílengjumst úti í náttúrunni og við treystum á að lopapeysan geri sitt gagn. Undir takti puntstránna rjúfa brestir hrossagauksins kyrrðina í bland við tíst þúfutittlingsins sem hefur ferðast hingað alla leið frá Marokkó.
Ekkert jafnast á við íslensku sumarnóttina, hún er það sem kemur okkur í gegn um skammdegið á norðurhjara. Jafnvel þó að við fáum ekki upplifa hana nema einu sinni yfir árið, er það nóg til að við leggjum töluvert á okkur til að finna hana aftur og aftur.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021