Þann 20. september síðastliðinn hélt Emma Watson ræðu við upphaf herferðar á vegum UN Women sem kallast HeForShe. Í ræðunni hvatti Watson karlmenn að ganga til liðs við kvennréttindabaráttuna. Megininntak ræðunnar og herferðarinnar er að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna sé ekki einkamál kvenna og svo að raunverulegt jafnrétti sé mögulegt þurfi karlmenn að taka afstöðu með jafnrétti kynjanna.
Í ræðunni minntist Watson til að mynda á ræðu sem Hillary Clinton hélt í Bejing árið 1997 um réttindi kvenna. Þar talaði Hillary um helstu baráttumálin í jafnréttismálum og nefndi þar nokkur atriði sem þyrfti sérstaklega að vinna í og bæta. Nú tæpum tveimur áratugum eftir að Hillary hélt ræðuna hefur ekki náðst árangur varðandi mörg þessara atriða. Emma Watson spurði því þeirrar spurningar í ræðu sinni hvort það geti haft áhrif að einungis 30% þeirra sem voru viðstaddir og hlustuðu á Hillary voru karlmenn. Er ekki líklegt að það þurfi að ná líka til þeirra og virkja þá í baráttunni?
Eftir að ræðan birtist á netinu hefur hún vakið upp mikil viðbrögð enda eðlilegt að ræða frægrar leikkona um vinsælt málefni veki upp umræðu. Sum gagnrýnin hefur falist í því að Watson hafi ekki gengið nógu langt. Hún sé hvít, rík, ung kona sem hafi notið mikilla forréttinda í lífinu og því sé ræðan of hófsöm, að með ræðunni sé hún í raun að segja að ástæða þess að karlmenn hafi ekki tekið virkari þátt í baráttunni sé að þeir hafi ekki fengið boð um slíkt. Með umfjöllun um vandmál karlmanna sé hún að leggja það misrétti til jafns við það misrétti sem konur upplifa vegna ójafnrar stöðu kynjanna og með því að vísa til þess að karlmenn eigi að taka þátt svo að dætur þeirra, systur og mæður verði ekki fyrir misrétti sé hún að biðja um jafnrétti kvenna út frá tengingu þeirra við karlmenn en ekki út frá þeirri einföldu staðreynd að þær séu manneskjur og eigi á þeim grundvelli að njóta mannréttinda til jafns við karlmenn.
Það er sjálfsagt að ræða hlutina á málefnalegan hátt og eðlilegt að deilt sé um markmið og leiðir til að ná jafnrétti en athyglisverðustu viðbrögðin eru eflaust þeirra sem töldu Watson hafa gengið alltof langt þrátt fyrir heldur hófsama ræðu. Frá því að ræðan birtist leið ekki langur tími þar til Watson var hótað að nektarmyndum af henni yrði lekið á netið. Hvort sem upprunalega hótunin var raunveruleg eða ekki, tóku alltof margir undir hana og voru fylgjandi því að birta nektarmyndir af Watson til að þagga niður þessa umræðu sem að Watson hafði náð að skapa. Alvarleiki þessa hótanna felst ekki síst í því að þær eru birtingarmynd þess að hegðun kvenna sé ástæða þess að þær verði fyrir misrétti og með því að stíga fram og vekja athygli á málefninu geti Watson sjálfri sér um kennt ef nektarmyndir af henni fara í dreifingu. Markmiðið virðist vera það eitt að hrekja konur frá opinberri umræðu með hótunum og eru þessar hótanir eru lítið annað en staðfesting á því hversu nauðsynleg umræðan er.
En hvort sem við teljum að ræða Watson sé frábær eða mjög ábótavant hljótum við flest að vera sammála megininntaki ræðunnar. Það sakar ekki að einblína aðeins á það sem sameinar okkur og nota það til að vinna saman að því markmiði að karlar og konur njóti jafnréttis á öllum sviðum samfélagsins. Settur hefur verið á fót undirskriftarlisti á vefsíðunni www.heforshe.org þar sem karlmenn eru hvattir til að taka afstöðu með jafnrétti kynjanna og skrifa undir því til staðfestingar. Þegar þetta er skrifað eru rúmlega 120 þúsund karlmenn búnir að skrifa undir og því ljóst að hægt er að gera mun betur. Líkt og með svo margt annað erum við að standa okkur mjög vel miðað við höfðatölu en um 5 prósent allra undirskrifta koma frá íslenskum karlmönnum.
Kæri karlmaður ég vil skora á þig að styðja við málstaðinn og sýna það í verki með því að skrifa undir. Því ef ekki þú, þá hver ? Ef ekki nú, þá hvenær ?
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021