Í gegnum árþúsundin hafa menn beitt ýmsum aðferðum við að taka líf hvers annars. Einstaklingsbundið val í þeim efnum er eflaust ótrúlega fjölbreytt og bæði ástæðulaust og smekklaust að fjalla frekar um það á þessum vettvangi. Hitt er þó verðugt umfjöllunarefni hvaða aðferðir stjórnvöld eða annars konar yfirvöld á hverjum tímum hafa valið til að framfylgja dauðarefsingum.
Auðvitað gefst ekki tími til þess um hábjargræðistímann að leggjast í mikla rannsóknarvinnu um framkvæmd dauðarefsinga í mannkynssögunni og raunar fráleitt af lesendum Deiglunnar að ætlast til þess. Engu að síður er bæði tilefni og tækifæri til að staldra við og íhuga hvers konar hugsun býr að baki vali á aðferð við svipta aðra manneskju í lífi þegar það er gert í nafni laganna.
Í pistli hér á Deiglunni fyrr í vikunni var sjónum beint að dauðarefsingum í Bandaríkjunum. Nú er það svo að hvorki sögulega né í samtímanum skera Bandaríkin sig úr þegar kemur að fjölda eða framkvæmd dauðarefsingum. Kastljósið er engu að síður á Bandaríkjunum sem einu helsta lýðræðisríki heims. Í opnu lýðræðisríki eru upplýsingar líka aðgengilegar, handhafar framkvæmdavalds sæta eftirliti löggjafans, dómsvaldsins og svo auðvitað frjálsra fjölmiðla. Þannig er því óvíða farið þar sem dauðarefsingum er beitt. Bandaríkin liggja þannig vel við höggi þegar fjallað er um dauðarefsingar.
Samkvæmt samantekt Upplýsingamiðstöðvar dauðarefsinga (Death Penalty Information Center) í Bandaríkjum eru aftökur þar í landi frá 1976 til dagsins í dag 1521 talsins. Langflestir hafa verið teknir af lífi með banvænni lyfjasprautu, eða 1341. Nú um stundir er sú aðferð viðhöfð af 30 ríkjum Bandaríkjanna og alríkisstjórninni. Aðferðin sjálf hefur sætt gagnrýni, enda sýna dæmi að hún er síður en svo sá þægilegi dauðdagi sem reynt hefur verið að halda fram. Raunar hafa nokkur þessara 30 ríkja til taks varaaðferð sem beitt er þegar eitursprautan bregst tilgangi sínum. Ekki er víst hverjar þær aðferðir eru en gera verður ráð fyrir að þær séu þá öllu meira afgerandi enda væntanlega uppi fótur og fit þegar þannig háttar til.
Ellefu fangar hafa verið teknir af lífi í Bandaríkjunum frá 1976 með því að koma þeim fyrir í gasklefa og streyma inn eiturgasi þar til viðkomandi er örendur. Þessi aðferð er býsna áhugaverð í ljósi þess að Bandaríkjamenn héldu á sínum tíma réttilega til haga þeim voðaverkum sem framin voru í útrýmingarbúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Frá 1976 hafa þrír dómfelldir einstaklingar í Bandaríkjunum verið hengdir og þrír hafa mætt örlögum sínum frammi fyrir aftökusveit. Báðar þessar aðferðir eru vel þekktar úr sögunni og ef frá er talin sú aðferð að höggva hausinn af viðkomandi, ýmist með sverði, exi eða fallexi, þá eru þessar tvær kannski þær sem helst koma upp í hugann þegar hugtakið aftöku ber á góma.
Og þó.
Einhverjum datt það í hug fyrir ekki svo mörgum áratugum að hægt væri að beita eiginleikum rafmagnsins í því skyni að fullnusta dauðadóma. Í framhaldinu hafa væntanlega færustu sérfræðingar fundið það út að koma mætti viðkomandi fyrir stól, vel og kyrfilega að sjálfsögðu, tengja hann við rafmagnsleiðslur, eina í hvirfilinn og svo útleiðslu um fætur eða í gegnum stólinn sem hann var settur í. Með nógu mikilli spennu mætti þannig murrka lífið úr viðkomandi með því að hleypa í gegnum hann rafstraumi í miklu magni.
Ekki er gott að átta sig fyllilega á því hvernig einhverjum datt í hug að þetta væri málið. Enn erfiðara er að skilja hvers vegna þetta varð viðurkennd aðferð við að lífláta fólk í ríki þar sem menn lögðu mannréttindayfirlýsingu til grundvallar stofnunar ríkisins. Líklega er engin ein líflátsaðferð jafn alræmd og íkónísk fyrir dauðarefsingar í Bandaríkjunum og rafmagnsstóllinn. Frá 1976 hafa 163 einstaklingar stiknað til dauða í rafmagnsstólum þar vestra og ótölulegur fjöldi þar á undan áður en dauðarefsingar voru aflagðar tímabundið árið 1967 fyrir tilstuðlan Hæstaréttar Bandaríkjanna.
En sú staðreynd ein og sér, að sérfræðingar og aðrir velti því fyrir sér hvernig best sé að taka líf manneskju, hvaða aðferð sé best, og finni upp mismunandi leiðir til þess, undirstrikar hversu fasísk og mannfjandsamleg hugsun liggur dauðarefsingum til grundvallar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021