Ég sat nýlega fyrir svörum á starfsframaviðburði laganema. Þar svaraði ég m.a. spurningu um það hverjir væru helstu gallarnir við starfið mitt. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Svarið fólst í samanburði á síðasta starfi mínu og núverandi. Þar til fyrir skömmu starfaði ég sem lögmaður. Hjá þeirri starfsstétt gilda skýrar siðareglur og lögmenn eru almennt mjög meðvitaðir um skilin milli starfs og einkalífs; skilin á milli lögmannsins og persónunnar. Annar lögmaður sem sat fyrir svörum benti á skikkju lögmanna sem á að undirstrika hlutverkið sem er leikið. Ég lýsti því að það væri ekki óalgengt að saksóknari, verjandi og réttargæslumaður borðuðu saman hádegismat í langri aðalmeðferð. Ættu létt og skemmtilegt kaffispjall á milli erfiðra skýrslutaka í þungum málum. Um þessar mundir starfa ég svo sem pólitískur ráðgjafi, sem aðstoðarmaður ráðherra. Helsti gallinn við pólitík eru einmitt þessi óljósu skil milli starfs og persónu. Og að í pólítík eru ekki allir leikendur bundnir við skýrar siðareglur – í raun fæstir.
Ég hafði varla lokið máli mínu þegar upp kom mál sem er ágætt dæmi um þennan ágalla á stjórnmálunum. Þingmaður Samfylkingarinnar tók þátt í umræðu um nýtt fjárlagafrumvarp í útvarpsþætti. Þar skaut hann á forsætisráðherra og flokk hennar með því að kenna ríkisstjórnina við fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Gaf þingmaðurinn þannig í skyn að fjármálaráðherra leiddi stjórnina í raun og væri handbragð flokks hans augljóst á frumvarpinu. Í kjölfarið sætti þingmaðurinn harðri gagnrýni, bæði frá pólitískum andstæðingum, en einnig frá eigin flokksmönnum. Hann var sakaður um kvenfyrirlitningu og var jafnvel gengið svo langt að segja orð hans minna á kynferðislega áreitni í samhengi við annað og óskylt mál, tengt þingmanninum. Fjölmargir stukku þarna á vandlætingarvagninn og vönduðu honum síður en svo kveðjurnar. Gagnrýni stjórnarandstöðuþingmannsins sem er, nota bene, nefndarmaður í fjárlaganefnd komst hvergi á blað og hefur hann síðan beðist afsökunar á framferði sínu.
Nýr dagur fæddi síðan af sér nýtt mál til þess að nýta í pólitískum leðjuslag. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók þátt í umræðum á Alþingi um fjármálaáætlun og fór í andsvar við ræðu þingmanns Viðreisnar sem gagnrýndi skort á frelsi í landbúnaði, ekki síst frelsi bænda til að ráða sér sjálfir. Ráðherrann vék í andsvari sínu að frelsi bænda til að stunda þá atvinnu sem þeir kysu og þar sem þeir kysu – þeir hefðu frelsi til að velja. Þannig kysu sumir þeirra að verða sauðfjárbændur og í samtölum hann hefðu sumir sagt að þetta væri meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu. Að svo búnu fór ráðherrann yfir dæmi um það sem hefði verið gert til þess að auka frelsið í þessum málaflokki, t.a.m. aðlögunarsamninga vegna stuðnings við sauðfjárrækt og fyrirkomulag á heimaslátrun. Hann fór sömuleiðis yfir það að það væri brýnt að stækka markaðinn fyrir afurðir bænda. Og það væri enn brýnna að stækka hlutdeild íslenskrar framleiðslu á innlendum markaði. Það var ekki að heyra á máli ráðherrans að honum stæði á sama um málaflokkinn og um framlag bænda til íslensks samfélags. Þvert á móti. Fordæmingar og formælingar létu hins vegar ekki á sér standa og voru staðreyndir og samhengi ekkert að flækjast fyrir kjörnum fulltrúum og öðrum pólitíkusum. Vegna skrifa á þessum pistli fletti ég einfaldlega upp upptöku af orðaskiptum þingmannsins og ráðherrans á Alþingisvefnum og horfði á. Það hefðu fleiri mátt gera áður en þeir skrifuðu stöðuuppfærslur og ályktanir í CapsLock.
Ég hef heyrt þingmenn lýsa því að það gerist æ sjaldnar að þeir hópist saman þvert á flokka yfir kaffibolla og léttara hjali. Lýsingarnar úr Ráðhúsinu eru síst betri. Umræðan og atlögurnar eru orðnar óvægnari og persónulegri og stemningin eftir því. Er það furða að áhugasamt og efnilegt fólk hugsi sig tvisvar um að starfa í slíku umhverfi? Ef til vill ættu stjórnmálamenn að klæðast skikkjum í vinnunni.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021