Að undanförnu hafa fréttir af starfsemi og stjórnarháttum Samherja hf. verið með nokkrum ólíkindum og skiljanlega kallað fram margskonar viðbrögð og gagnrýni. Ýmsir þættir í starfsemi fyrirtækisins eru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra. Það er hinn rétti farvegur þess máls og lítið hægt að leggja út frá því nema að rannsóknin ein og sér hlýtur að teljast álitshnekkur fyrir stjórnendur og eigendur fyrirtækisins og orðspor þess að sama skapi laskað. Nýlegar fréttir af róttæku og herskáu „PR starfi“ innan fyrirtækisins hafa ekki bætt úr skák og vinnubrögðin snúist í höndum þess, vægast sagt.
Málið er alvarlegt enda snertir það ýmsa þætti þjóðmálaumræðunnar í ljósi þess að Samherji er eitt öflugasta fyrirtæki landsins og annað stærsta sjávarútvegsfyrirtækið sé litið til úthlutaðra aflaheimilda samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Kastljósið á starfsemi og stjórnarhætti Samherja beinir óhjákvæmilega líka kastljósinu að öðrum fyrirtækjum atvinnulífsins, þá sérstaklega sjávarútvegsfyrirtækjum, og vekur upp spurningar um góða stjórnarhætti, gegnsæi og upplýsingagjöf til stjórnvalda og almennings.
Auðlindanýtingin í þágu þjóðarinnar
Sjávarútvegurinn er einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar og um hann gilda nokkuð vel mótaðar reglur um umgengni og nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og hvaða skyldum sjávarútvegsfyrirtæki gegna í því sambandi, svo sem með greiðslu veiðigjalds. Markmið laga um stjórn fiskveiða er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja er því mikil bæði gagnvart stjórnvöldum sem og almenningi öllum og langflest standa þau undir þeirri ábyrgð og gott betur.
En þjóðfélagsbreytingar eru um margt hraðar og tíðarandinn og samfélagslegar kröfur í sífelldri mótun af þeim sökum. Eðlilegt er að löggjöf um réttindi og skyldur sjávarútvegsfyrirtækja taki mið af því og tímabært er að kveðið sé fastar á í lögum um góða stjórnarhætti sjávarútvegsfyrirtækja og aukið gegnsæi í störfum þeirra með upplýsingagjöf til stjórnvalda og almennings.
Fylgja eða skýra
Þetta má gera með því að skylda með lögum sjávarútvegsfyrirtæki sem teljast stór að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, rétt eins og fjármálafyrirtækjum er skylt að gera. Viðurkenndar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja fela í sér tilmæli til viðbótar við lög og reglur og nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Þessu til viðbótar er ekki úr vegi að á stórum sjávarútvegsfyrirtækjum hvíli svipuð upplýsingarskylda gagnvart stjórnvöldum og almenningi og gildir um skráð félög á markaði um til að mynda ársreikninga þeirra, samþykktir og hluthafaskrá.
Vel rekin og samfélagslega ábyrg fyrirtæki eiga mikið undir því að efla almennt traust á viðskiptalífinu og á það einna helst við um sjávarútveginn. Til að íslenskur sjávarútvegur verði áfram í fremstu röð á heimsvísu þarf að ríkja traust og skilningur á mikilvægi þess að fiskveiðiauðlindin sé ávallt nýtt með sem skynsamlegustum hætti í þágu þjóðarinnar allrar. Eitt fyrirtæki, þótt öflugt sé, fær ekki hnikað til þeim grundvallaratriðum.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020