Tímamót urðu í dag þegar stjórnvöld tilkynntu að þau hygðust setja af stað áætlun um að aflétta hömlum á ferðir fólks. Heitasta von alls almennings er að böndum hafi verið komið yfir hina undanfarnar vikur og að á komandi vikum muni lífið smám saman færast aftur í eðlilegt horf. Spurningin sem við spyrjum okkur í dag er samt: hvað verður hið nýja „eðlilega horf“.
Sumar samfélagsbreytingar gerast hægt og hljótt. Smátt og smátt færist mæliskeiðin yfir það hvað teljist vera hófsamt og eðlilegt og þegar horft er um öxl verður fólki hverft við. Þannig upplifa foreldrar stundum þegar þau ætla að rifja upp gullaldar kvikmyndir frá áttunda áratuginum með börnunum sínum harkalega vöknun þegar þau átta sig á því hversu fordómafullar margar myndir voru og þá sérstaklega myndir sem gerðu út á að vera hressar fjölskyldumyndir.
Aðrar breytingar gerast hratt. Yfirleitt vegna þess að einhver utanaðkomandi atburður keyra breytingarnar í gegn. Þetta geta verið náttúruhamfarir, styrjaldir og pestir. Byggðir leggjast í rúst og venjur komast á sem festa rætur. Þannig er talið að sú venja að biðja guð að blessa þá sem hóstuðu hafi komist á í kringum 14. öld þegar svarti dauði gekk yfir og hefur hún haldist síðan.
Hið mánaðarlanga samkomubann er stærsta tölvunámskeið sögunnar. Gríðarlegur fjöldi fólks hefur, þvert á eigin vilja, þurft að tileinka sér að vinna með fjarfundarbúnað á kostnað þess að hittast í eigin persónu. Óháð því hvort fólk vilji nýta sér þessa tækni í framtíðinni þá er það á hreinu að það getur það. Viðmiðið hefur færst til. Á netinu sjást myndir sem sýna heiðbláan himinn fyrir ofan borgir sem hafa barist við loftmengun svo árum skiptir. Í Reykjavík virðist umferð hafa minnkað um 90% en mælingar sýna að samdrátturinn var bara 20%.
Spurningin er því hvort við ætlum að nýta okkur þetta ástand til þess að þróast og taka upp nýja siði eða hvort við munum smella aftur í gamla farið eins og músagildra.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021