Bókin Factfulness eða „Staðreyndavitund“ er ein besta bók sem ég hef lesið. Bókin færir okkur nýja samfélagsrýni. Ákveðið mótvægi við fréttaflutning samtímans, þar sem fréttir virðast flestar neikvæðar og heimsmynd virðist hnignandi. Höfundur bókarinnar byggir skrif sín á fyrirliggjandi staðreyndum og færir rök fyrir því að heimurinn fari batnandi. Skilgreining höfundar bókarinnar á staðreyndavitund er:
„Hinn róandi vani að hafa aðeins skoðanir á því sem þú getur rökstutt með staðreyndum.“
Bókin færir rök fyrir því að þrátt fyrir breyskleika mannkyns erum við í bata. Eftir lestur bókarinnar klappaði ég sjálfri mér á bakið. Tilraunir mínar til flokkunar á rusli og notkunar á papparörum (þrátt fyrir einstaka blótsyrði yfir því að þau molni alltaf í kokteilglösunum) væru í raun að skila einhverju til samfélagsins. Bókin fannst mér trúverðug vegna þess að hún byggði á tölfræðilegum gögnum sem unnt var að sannreyna og staðfesta. Og tölfræði og sannreynanleg gögn er það næsta sem við komumst sannleikanum. Factfulness sagði mér að heimurinn er betri í dag en í gær.
Í dag byggjum við þekkingarleit okkar minna á bókum og kannanir gefa til kynna að fólk sæki upplýsingar meir og meir til samfélagsmiðla. Nýleg Pew rannsókn sýndi að 62% Bandaríkjamanna sæki fréttir sínar af samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlar eru skoðanamótandi en samkvæmt könnuninni sagðist tæplega fjórðungur svarenda að þeir hefðu skipt um skoðun vegna samfélagsmiðla. Að fjórðungur skipti um skoðun er ágætis hlutfall. Hafið þið oft verið stödd í rökræðum í hóp þar sem fjórðungur skiptir um skoðun? Ekki ég.
Eftir að hafa lesið þessa könnun opnaði ég Twitter með það að markmiði að finna færslu sem hefði mögulega skoðanamótandi áhrif á viðhorf mitt til samfélagsins. Árið 2020 hefur verið hamfaraár á margan hátt og það er á þessum tímum sem skoðanaskipti falla á öndverða póla. Hörð skoðanaskipti hafa farið fram til dæmis um réttmæti aðgerða gegn Covid, um Trump og viðbrögð við Black Lives Matters. Það kom mér því á óvart að allir sem ég fylgdi á Twitter voru sammála. Ég var stödd í samfélagsmiðlakór vel samsettra radda sem sungu allar sama lagið. Í gegnum árin hafði mér fyrir tilviljun tekist að safna saman hópi sammála fólks. Var ég sammála þeim eða gegnsýrð af einhliða upplýsingaflæði? Margar fréttaveiturnar sem ég hafði ákveðið að fylgja byggðu upplýsingar sínar iðulega á tilvísun til gagna sem birtu mér upplýsta en jafnframt verndaða samfélagsmynd. Ég velti því fyrir mér hvort það hefði hamlandi áhrif á skoðanaskipti okkar að við virðumst föst í ákveðnu skoðanamengi þeirra félaga sem við umgöngumst í raunheimi og á samfélagsmiðlum?
Í einlægum uppsteit ákvað ég því að fylgja nokkrum aðilum sem ég taldi mögulegt að ég væri ósammála. Það sem gerðist í kjölfarið var áhugavert. Smátt og smátt litaðist öll fréttaveita mín á samfélagsmiðlum af upplýsingum af öndverðum meiði við það sem ég hafði áður talið satt og rétt. Ég ákvað að lesa fréttaflutning þessara aðila með morgunkaffinu. Þessir aðilar sem ég hafði áður verið ósammála byggðu umfjöllun sína einnig á tölulegum staðreyndum og gögnum sem ég hafði áður ekki sjálfviljug nálgast.
Eftir því sem á leið magnaðist þessi staðreyndaóreiða á samfélagsmiðlinum. Trú mín á gögnum er sú sama, en hvort það sé bókin Factfulness, samfélagsmiðlakórinn sem ég var áður meðlimur í eða nýr veruleiki háværra andstæðra póla, þá er veruleikinn hreinlega sá að ef ég ætla að hafa skoðun þá þarf ég að kafa dýpra í þekkingarleit minni en að skoða samfélagsmiðla á morgnana. Staðreyndavitund er mikilvæg, en staðreyndargagnrýni enn mikilvægari.
Það vakti þess vegna ákveðna gleði þegar ég las fréttir af sömu Pew rannsókn þar sem megininntakið var að meirihluti notenda samfélagsmiðla, eða 76% skipti ekki um skoðun þrátt fyrir að hafa notað samfélagsmiðla. Ég þarf þá kannski ekkert að vera að kafa dýpra eða hvað?
- Galdrakonan og spilin - 5. mars 2021
- Bless (í bili?) - 20. janúar 2021
- Skötuboðið - 22. desember 2020