Allt frá því að menn fóru að búa saman í samfélögum fóru leikreglur að mótast um hvað má og hvað má ekki gera. Í fyrstu voru þessar reglur einfaldar, sjálfsprottnar og óformlegar en fyrir tæplega 4000 árum varð mönnum ljóst að þörf var á að rita reglurnar í stein, bókstaflega.
Fyrstu lögbókina má rekja aftur til Babýloníumanna sem rituðu sitt lagasafn á tveggja og hálfsmetra háa steinhellu, sem nú er varðveitt á Louvre-safninu í París. Eins og gefur að skilja þá var plássið á steinhellunni heldur takmarkað og því ekki möguleiki á að vera með mjög flókna lagabálka skráða í steininn. Á þessum tíma var því fræðilegur möguleiki fyrir almenning að kunna reglurnar utan að.
Og sem meira var þá voru lög þess tíma frekar afdráttarlaus og refsingin við lögbrotum einnig. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn kemur m.a. fyrir í þessari fyrstu lagabók. Menn voru lítið að velta fyrir sér málsatvikum hverju sinni eða meta aðstæður sem áhrif gætu haft á niðurstöðu dóma. Kýldi maður tennur úr jafningja sínum skyldi berja tennurnar úr honum sjálfum og þar fram eftir götunum.
Nú fjögur þúsund árum síðar er óhætt að segja að það er fjarstæðukennt markmið að ætla venjulegum samfélagsborgurum að kunna öll lög og allar reglugerðir utanbókar og hvað þá að túlka í hverju tilfelli fyrir sig með því að meta aðstæður eða málsatvik.
Þetta má t.d. glögglega sjá í þeim áhugaverða dálki Spurðu lögmanninn á Smartlandinu þar sem fólki gefst kostur á að senda inn nafnlausar spurningar til lögmanns um þau álita- og vafamál sem liggja fólki á hjarta.
Spurningarnar snúast oftar ekki um arf eða auð, hvernig má komast hjá skatti, hvernig losna má undan skuldum, nágranna- og fjölskylduerjur, eða vangaveltum um tilvistarrétt katta (kannski ekki alveg). Oft mætti álykta af spurningunum að þær endurspegli helstu lesti manneskjunnar eins og græði, nísku, eigingirni, öfund og reiði og lýsi um leið ömurlegri samfélagsgerð nútímans.
Ég held hins vegar að þetta séu hreinlega óskaplega heiðaralegar og eðlilegar spurningar sem lýsi raunverulegu vandamáli þar sem lögfræði daglegs lífs er orðin svo flókin að venjulegt fólk veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga.
Eða er það bara eðlilegt að fólk viti ekki hvort það er hagkvæmara að fá gjöf fyrir eða eftir andlát, hvort lamað barn þurfi að greiða tekjuskatt af gjöfum, hvort 25 ára gamlar skuldir fyrnist eða hvort megi sekta nágrannana fyrir að taka ekki til í garðinum.
Án þess að að ég sé að mæla með því að fólk fari að missa andlitin í stórum stíl og pota úr hvor örðu augun eða kýla tennurnar úr þá ættum við kannski að staldra aðeins við og skoða hvort ekki sé hægt að færa þetta eitthvað til betri vegar og einfalda líf okkar ólöglærðu leikmannana að einhverju marki.
Ég bara spyr…lögmanninn.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020