Það er ekki hægt að segja að vestræn lýðræðisríki hafi heilt yfir brugðist rétt við hinum válega Coronavírus strax frá fyrsta degi. Þó íslensk stjórnsýsla hafi brugðist vel við hafa ríki austur Asíu vinninginn, enda búa þau að biturri reynslu síðan Sars gekk þar í byrjun aldarinnar. Þó sum þessara ríkja séu lýðræðisríki eru það ekki sérlega lýðræðislegar aðferðir sem greinilega virka, og mikið lagt upp úr því að halda vírusnum í skefjum strax í byrjun.
Í Suður-Kóreu varð útbreiðsla Corona þó mun meiri en til dæmis í Singapore, Hong Kong eða Taivan, þó aðferðirnar væru svipaðar, og svo virðist að þar um hafi fyrst og fremst einn sjúklingur, Sjúklingur 31, ráðið úrslitum. Reyndar bætir ekki úr skák að viðkomandi er ennfremur meðlimur í sértrúarsöfnuði sem heldur uppi mjög virku félags- og trúboðsstarfi víða um landið.
Sem betur fer hefur Sjúklingur 31 ekki verið nafngreindur. Það væri trúlega ekki til þess fallið að hjálpa vísindamönnum að rekja sporin ef jafnframt ætti að láta einstaklinga sæta ábyrgð fyrir að bera út smit. En hann innritaði sig á sjúkrahús snemma í febrúar, var ekki greindur með Corona fyrr en tíu dögum síðar – en í millitíðinni hafði hann tvisvar farið á trúarsamkomur hjá söfnuðinum Shincheonji Church of Jesus – og um ⅔ allra smita í Suður-Kóreu má rekja til safnaðarins.
Svona frásagnir draga vel fram mikilvægi einfaldra og hversdagslegra hluta sem við erum beðin um að hafa í huga þessi misserin. Þvo sér um hendurnar, halda hæfilegri fjarlægð og forðast fjölmennar samkomur. Sjúklingur 31 hafði ekki fengið greiningu um að hann væri smitaður af vírusnum, ekki frekar en Barþjónninn með flautuna í Ischl.
Trúlega þekkja flestir einhverja sem að eigin sögn eru svo hraustir að þeir geta vel mætt í vinnuna þó þeir séu með smá flensu. Það er ágætis lærdómur inn í framtíðina að menn eiga að vera heima hjá sér, burtséð frá slíkri hreysti, ef það er hætta á því að þeir smiti aðra. Venjuleg inflúensa drepur líka fólk, þó hún sé oftast meinlausari.
- Við þurfum að tala um Danmörku - 4. nóvember 2020
- The West Wing fyrr og nú - 22. september 2020
- Flokkur hræddra hrossa - 7. maí 2020