Sóttaróttinn

Að óttast er mikilvægur eiginleiki. Óttinn er frumstætt viðbragð við hættu og það er engum vafa undirorpið að án óttans hefði manneskjan sem tegund ekki náð hingað á tímaásnum. Það er eitthvað í frumstillingunni sem segir manni að varast hið ókunna og sama stilling veldur ótta gagnvart hinu sýkta.

Að óttast er mikilvægur eiginleiki. Óttinn er frumstætt viðbragð við hættu og það er engum vafa undirorpið að án óttans hefði manneskjan sem tegund ekki náð hingað á tímaásnum. Það er eitthvað í frumstillingunni sem segir manni að varast hið ókunna og sama stilling veldur ótta gagnvart hinu sýkta.

Nú herjar farsótt á heimsbyggðina. Óþekkt veira smitast ört á milli manna, veldur veikindum og dregur suma til dauða. Þótt dauðinn sé okkur öllum óumflýjanlegur er hann líka svo óásættanlegur í hverju og einu tilviki. Það er eðlilegt við slíkar aðstæður að frumstilling manneskjunnar bregðist harkalega við og valdi ótta innra með okkur. Litli heilinn hamast við að senda stóra bróður sínum alls kyns hættuboð sem erfitt er að hunsa – og ætti ekki að hunsa.

En ástæðan fyrir því að litli bróðir sendir stóra bróður þessi skilaboð er sú að stóri bróðir ræður – og á að ráða. Eins mannlegur og óttinn er þá er það dómgreindin og skynsemin sem skilur manneskjuna frá flestum öðrum lífverum. Við höfum burði til að vega og meta staðreyndir, byggja á reynslu og draga ályktanir. Undir þeim kringumstæðum sem nú eru uppi má litli heilinn ekki vera við stýrið. Hann má kalla úr aftursætinu út af öllu því sem hann er hræddur við en hann getur ekki ráðið för einn síns liðs.

Viðbrögðin við COVID-19 faraldrinum hér á landi hafa vakið eftirtekt víðs vegar um heim. Íslendingar eru lengst komnir í greiningu á faraldrinum og láta nú alþjóðasamfélaginu í té mikilvægar upplýsingar um eðli og hegðun veirunnar sem nýtast munu í baráttunni gegn útbreiðslu hennar. Þetta hefur gerst vegna þess að litli og stóri heilinn hafa unnið saman. Menn hafa skynjað hættuna en jafnframt beitt dómgreind sinni og skynsemi til að verjast henni.

Höldum því áfram.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.