Allt var fundið sölunni til foráttu. Tímasetningin var óhentug, verðið of lágt, framtíðararðgreiðslur færu í súginn og nauðsynlegt væri að setja stefnu um framtíðarfyrirkomulag á bankastarfssemi áður en þetta skref var tekið. Fjárfestar myndu einnig halda að sér höndum enda væri óvissan í hagkerfinu mikil.
En í raun lá þarna að baki almenn tortryggni til einkareksturs og sú grunnhugsun að almennt sé betra að hið opinbera starfræki sem flesta þætti samfélagsins. Þessi hugsun hefur alltaf lifað góðu lífi á Íslandi, var þó á undanhaldi fyrir hrun en fékk væna vítamínsprautu eftir 2008.
Þessi þróun kemur einna skýrast fram í þeirri staðreynd að opinberi geirinn hefur vaxið hratt á síðustu árum og dafnað á kostnað einkageirans. Ríkisvæðing hefur verið meginstefið og sú staðreynd að stór hluti sparifjár landsmanna fari í eftirlaunasjóði, sem eru undir stöðugum þrýstingi að beita afli sínu og fjármunum fyrir meinta heildarhagsmuni, er angi af sama meiði.
Þrátt fyrir úrtöluraddir um sölu bankans, virðist tímasetning hennar nokkuð góð. Þær umbreytingar sem munu að öllum líkindum eiga sér stað, gerir það að verkum að ríkið er ekki hentugur aðili til að fara með stóran eignahlut í fjármálakerfinu. Þrátt fyrir að einkaframtakið sé langt frá því að vera fullkomið, er erfitt að mótmæla því að það er töluvert öflugra í að leiða nýsköpun og nauðsynlegar umbreytingar en hið opinbera.
Jafnframt er hreinlega góð áhættustýring að eiga ekki of stóran hlut í bankakerfinu enda er allt eins líklegt að þessi framþróun feli í sér að umfang þess eigi eftir að minnka töluvert. Eftirspurn eftir hlutabréfum hefur vaxið mikið og í kjölfar vaxtalækkana hefur áhugi á áhættumeiri fjárfestingum aukist. Því var næstum gefið að eftirspurn eftir nýskráningu á markað yrði töluverð, og alls ekki öruggt að svo yrði áfram.
Ólík afstaða til sölunnar hefði ekki getað komið á betri tíma fyrir kjósendur. Nú eru aðeins nokkrar vikur í að kosningabaráttan hefjist af alvöru og í að slagorðaflaumur dynji yfir okkur, hugsaður til þess að hafa áhrif á úrslit Alþingiskosninga í haust. Það eru þó þessi einstöku mál sem lýsa skoðunum og getu stjórnmálamanna best. Þegar raunverulegu máli skiptir hvaða afstöðu viðkomandi hefur til einkaframtaksins og hver lætur aðgerðir fylgja orðum þrátt fyrir sterkar mótbárur andstæðra afla.
Salan á Íslandsbanka er einmitt svoleiðis mál, því næsta víst er að bankinn yrði í höndum ríkisins um ókomna tíð ef viðhorf stórs hluta þingmanna og flokka sem bjóða fram til Alþingis fengju að ráða.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021