Árið 2020 verður í tímans rás metið sem straumhvarfaár þegar sagnfræðingar framtíðarinnar rýna í fortíðina á svipaðan hátt og árin 1918 eða 1944. Fjarfundir og fjarvinna sem lengi voru talin fjarskalega ólíkleg verkfæri urðu skyndilega að hversdagslegum veruleika um allan heim.
Skrifstofur lokuðu og starfsmenn fóru heim og héldu vinnudeginum áfram í stofum og skrautlega innréttuðum svefnherbergjum sínum og barna sinna. Fundir hættu að kalla á ferðalög milli húsa heldur flutti fólk sig milli funda með nokkrum músasmellum.
Nú þegar upphaf endaloka Covid faraldursins horfir við okkur má velta því fyrir sér hvort fólk muni hlaupa aftur í faðm kaffistofunnar og skrifstofugrínarans eða halda áfram að vinna heima með tilheyrandi tímasparnaði? Líklegasta svarið er bæði. Skrifstofustörf munu vera sveigjanlegri heldur en fyrir 12 mánuðum síðan þar sem krafan um 100% viðveru starfsmanna hefur í fjölda tilfella reynst ónauðsynleg til þess að tryggja vinnuframlag fólks.
Þörf fyrir skrifstofuhúsnæði gæti dregist saman þar sem hluti skrifstofufólks vinnur nú að jafnaði heiman frá. Skrifstofur munu breytast í takt við nýtt vinnufyrirkomulag. Sennilega verður þróunin þannig að vinnustöðvunum sjálfum fækkar á meðan samvinnu- og fundarýmum – nær og fjær – fjölgar. Heimili okkar munu líklegast breytast þegar áhrifavaldar munu sannfæra okkur um nýjar og áður óþekktar hæðir í metnaði í heimaskrifstofur okkar. Meðalheimili gætu stækkað um svo sem eina skrifstofu.
Margar borgir hafa í Covid faraldrinum upplifað svokölluð kleinuhringsáhrif þar sem innborgirnar hafa sofnað á meðan meiri virkni mælist í úthverfunum. Það verður stór áskorun að mæta slíkri þróun hratt til þess að slíkt ástand festist ekki í sessi. Hugtakið úthverfi gæti einnig víkkað út þar sem fólk er tilbúið að leggja á sig lengri akstur fyrir vinnu ef það mætir sjaldnar í viku.
Mun aðdráttarafl stórborga minnka á kostnað minni og meðalstórra borga sem verða áhugaverðari kostir fyrir fólk og fyrirtæki? Líklegast er að stórfyrirtæki muni áfram hafa lykilskrifstofur í stórborgum jafnframt því sem þau þróa aðrar vinnustöðvar á öðrum stöðum.
Tækifærin eru stór fyrir staði sem geta laðað til sín kraftmikið, duglegt fólk, en til þess að geta tekið á móti fólki sem vill búa utan síns heimalands í nokkra mánuði þarf þónokkra endurhugsun á því kerfi sem við höfum komið okkur upp. Nýlega var erlendum ríkisborgurum utan EES gert kleift að dvelja á Íslandi í allt að sex mánuði og vinna erlendis í fjarvinnu en eins og kom fram í viðtali Northstack við Kevin Law sem flutti til Íslands í þrjá mánuði á síðasta ári er Ísland frábært til heimsókna en þú lendir á ósýnilegum vegg þegar þú ætlar að taka þátt í ýmsum hversdaglegum verkefnum.
Hin gríðarlega sterka samtenging heimsins í gegnum ýmsar samgöngutengingar gera það að verkum að farsóttir á borð við Covid gætu orðið algengari á komandi árum en þær hafa verið undanfarna áratugi.
Tækifæri Íslands sem hefur eina megingátt til landsins og hefur náð miklum árangri í að halda faraldrinum niðri gætu verið mikil en til þess að grípa þau þarf að halda áfram að byggja hér upp lífsgæði í fremstu röð og skapa samhliða því umgjörð sem gerir fólki hvaðanæva af í heimnum kleift að koma hingað til skemmri tíma og vinna héðan.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021