Þegar Alþingi flytur í nýja skrifstofubyggingu við Austurvöll á næstu árum losnar um mikið skrifstofupláss í húsunum milli Austurstrætis og Austurvallar sem nú hýsa nefndarsvið þingsins og skrifstofur þingflokka.
Landsbanki Íslands áformar að reisa nýjar höfuðstöðvar í miðbænum. Sumir hafa á þessu miklar skoðanir og telja einboðið að bankinn eigi að vera annars staðar. Það er samt nákvæmlega ekkert furðulegt við það að fyrirtæki vilji hafa stórar starfsstöðvar sínar miðsvæðis. Og gott mál þannig séð. Störf í miðbæjum styrkja þjónustu.
En þessum vangaveltmu óháð er líka ljóst að gríðarlegt magn af skrifstofuhúsnæði losnar í Kvosinni við færslu Landsbankans.
Fleira má tína til. Við Tryggvagötu er mikið laust pláss þar sem Velferðarráðuneytið var til húsa sem þarfnast viðgerða. Faxaflóahafnir eru að flytja. Ekki er víst að Tollurinn verði að eilífu í núverandi húsnæði en heimild er í fjárlögum til að selja það. Þá ber að nefna uppbyggingu á stjórnarráðsreitnum sem bætir enn í skrifstofuhúsnæðismagnið.
Það eru vissulega ýmsar hugmyndir um hvernig megi nota brot af þeim fermetrum sem losna, til dæmis undir nýtt lista- eða bókasafn.
En ráðstöfun í þágu opinberra stofnana verður samt dropi í hafið. Ljóst er að mikið magn af skrifstofufermetrum er að losna og það mun hafa áhrif á markaðinn. Ódýrara verður fyrir nýja aðila að fá skrifstofuaðstöðu miðsvæðis sem verður jákvætt fyrir atvinnu miðborgarinnar. Síðan þarf hugsanlega að finna ný not fyrir það húsnæði sem ekki verður þörf fyrir og opna hugsanlega fyrir nýja notkunarmöguleika á hluta þess. Og það má alveg leyfa markaðnum að koma með ferskar hugmyndir í þeim efnum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021