Skötuboðið

Þegar ég ólst upp var hápunktur jólahátíðarinnar Þorláksmessa. Jú, ég fékk ekki pakka en það var kvöldið sem hús foreldra minna fylltist af vondri lykt, en vinum og hlátri.

Í dag er 22. desember og jólin koma eftir tvo daga. Þetta eru Covid jólin 2020 og ég viðurkenni fyrirfram að jólagjafirnar í ár réðust mikið af því hvar væru minnstar raðirnar. Ég hafði gleymt þessum Black Friday og síðan þessum þarna Singles Day. Tvö tækifæri sem ég náði ekki að standa mig í að vera skipulögð. Ég er samt í jólaskapi þrátt fyrir að hafa keypt jólagjafir í Bónus og gleymt að baka Sörur.

Sumir tengja jól æsku sinnar við það að skreyta jólatré á meðan Haukur Mortens söng jólin inn. Jólin fyrir mörgum eru hefðir. Hefðin snýst um aðventuna, að baka smákökur og skera laufabrauð í faðmi fjölskyldunnar. Þetta er tilbúinn spenningur sem flest okkar kunnum vel við. Veitir okkur ákveðna gleði á meðan það er slökkt á sólinni og við hækkum í ofnunum.

Í ár eru jólin dálítið sérkennileg. Þegar ég var yngri snérist samfélagslegt kvart mitt um jólin um trúarlegt útgöngubann um jólahátíðina (barir voru lokaðir). Í dag er veruleiki okkar sá að okkur er aðeins heimilt að búa til „jólakúlur“ til að fagna jólum. Þegar svo ber að þá fór ég að hugsa hvað raunverulega fangar jólin fyrir mér.

Þegar ég ólst upp var hápunktur jólahátíðarinnar Þorláksmessa. Jú, ég fékk ekki pakka en það var kvöldið sem hús foreldra minna fylltist af vondri lykt, en vinum og hlátri. 

Mamma stóð þetta kvöld við pottinn með illa lyktandi skötu og hnoðmör beint frá Ísafirði  og gerði stöppu á meðan pabbi skenkti brennivíni úr klaka sem hafði verið frystur með greni og vatni.  Hver Þorláksmessa gekk út á að reyna að takmarka skaða af lyktinni sem síðan gleymdist fljótt í hópi af góðum vinum foreldra minna.

Lyktin af skötunni var ákveðinn mælikvarði á Þorláksessu hvers árs.  Ég man eftir að lykta af sendingunni frá Ísafirði með óttablandinni tilhlökkun. Þetta var og er versta lykt í veröldinni. Ef skatan var vel kæst mynduðust fleiri tár hjá gestum og við börnin fengum extra mikið hrós fyrir að borða þessa vel kæstu skötu.

Mamma mín sagði stundum: Þú ert greinilega ættuð frá Ísafirði. (Það var mesta hrós lífs míns og skutlaði ég þá í auka bita). Kæst skata er þannig eftirá að hyggja eins og hreinsun. Anda djúpt og vitin sviðu. Fullorðnir grétu smá (þessi lykt) og börnin fengu hrós. Þannig var árið gert upp. Nema fullorðnir máttu staupa með.

Skatan frá ári til árs hefur verið eins og og mælikvarði á árið. Kæst skata kallaði á fleiri staup af Brennivíni. Því kæstari, því betur var árið gert upp á Þorláksmessu.  Foreldrar mínir og síðar systir hafa haldið í þann sið að loka árinu á Þorláksmessu með því að halda skötuboð. Nema í ár ákváðu þau að vera erlendis.

Hvernig á að gera upp svona ár . Við erum nefninlega öll búin að vera duglegri en öll árin ti til samans. Hvernig á að gráta nema með kæstri skötu? Hvernig eiga börnin að fá hrós fyrir hörku ársins ef það er ekki skötuboð? 

Það er árið 2020 og við vitum öll hvað það þýðir. Við þurfum öll móður allra skötuboða. Ég ákvað því í dag að fara og kaupa skötu í fyrsta sinn. Ég fann kæstustu skötu sem til var í Reykjavik (ég veit hún er til kæstari á Ísafirði) og keypti fyrir tíu manna jólakúlu. Ég ætla að gera mína fyrstu skötustöppu að vestfirskum sið úti á svölum, í galla sem má síðan henda. Ég er búin að Googla þetta, held ég sé búin að læra listina að stappa, og nú búin að vara nágrannana við því sem koma skal.

Húsið mun lykta, það verður hreinsun á vitum. Ég lofa gráti útaf gufum og miklu hrósi fyrir hörku. Við eigum þetta skilið. Eitt staup og síðan má 2021 koma.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.