Samtal þeirrar Þórs Magnússonar og Jóns Reynis á skemmistaðnum Óðali í hinni klassísku mynd Dalalífi er með þeim merkilegri sem íslensk kvikmyndasaga hefur að geyma. Fyrir utan allt hið augljósa í samtalinu þá geymir það heilmikinn sannleik þegar kemur að peningum.
Þegar tal þeirra félaga berst að námskeiðinu sem Þór Magnússon skáldaði upp á staðnum til að hafa fé af sessunaut sínum þá segir sá síðarnefndi, stóreignamaður og bissneskall með meiru, að peningar skipti engu máli, og undir það tekur Þór, og segir að það sé sé alveg rétt, að peningar skipti engu máli. Vendir JR þá kvæði sínu í kross og segir að það sé bara ekki rétt, því peningar skipti auðvitað miklu máli. Þór tekur auðvitað líka heilshugar undir það.
Hvort tveggja er nefnilega rétt. Peningar skipta engu máli um leið og þeir skipta miklu máli. Það var bara eftir hvernig á það er litið, eins og segir í laginu. Líklega hafa fáir orðað gildi og tilgang peninga betur en Einar Benediktsson þegar hann lýsti þeim sem hreyfiafli þess sem gera þyrfti.
Sköpun er það sem skiptir sköpum þegar upp er staðið. Peningar geta verið og eru oft hreyfiafl sem ýtir undir sköpun. Það er þess vegna ekki úr lausu lofti gripið þegar því er haldið fram að tjónið af þeim umfangsmiklu sóttvarnarráðstöfunum sem gripið hefur verið til vegna umgangspestarinnar sem kennd er við kórónu verði hvað tilfinnanlegast þegar um sköpun listamanna er að tefla.
Í það minnsta væri fráleitt að líta framhjá því að hinn hysteríski ótti er smám saman að kæfa alla möguleika listamanna á því að lifa á list sinni. En auðvitað skipta peningar engu máli fyrir listamenn – og auðvitað skipta peningar miklu máli fyrir listamenn.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021