Sögulega hátt atvinnuleysi hefur verið ein helsta birtingamynd Covid-19 á vinnumarkaði. Í lok febrúar voru fleiri en 21.000 einstaklingar á atvinnuleysiskrá. Fjöldi atvinnulausra hefur ekki farið undir 20.000 síðan í september 2020 og er þá ekki taldir með þeir sem fá greiddar svokallaðar hlutabætur. Af þessum hópi hafa tæplega 13.000 verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur eða 60% atvinnulausra.
Við Íslendingar eru ekki óvanir efnahagslegum áföllum, en höfum þó yfirleitt dreift byrði þeirra með því að allur almenningur taki hana út í verðbólgu. Sú er ekki raunin nú, heldur hefur verðbólga verið nokkuð lág, ásamt því hafa vextir lækkað, eignaverð hækkað, kaupmáttur þeirra sem haldið hafa starfi sínu hækkar að meðaltali og til að kóróna þetta allt, styttist vinnuvikan jafnvel á sama tíma. Nú er pistlahöfundur alls ekki að óska fyrri meðala efnahagsáfalla, þvert á móti, heldur aðeins til glöggvunar á ólíku hlutskipti hópanna tveggja, þeirra sem starfa hjá atvinnurekendum sem verða lítið fyrir áhrifum Covid-19 og þeirra sem taka skellinn.
Þó svo að áhrif faraldursins hafi komið þungt niður á ferðaþjónustunni og tengdum greinum er ljós við enda ganganna. Bólusetningar ganga mjög vel í nokkrum stórum löndum sem hafa heimsótt landið í nokkrum mæli síðustu ár, líkt og Bandaríkin og Bretland. Þó svo að bólusetningar gangi of hægt hér á landi og í Evrópusambandinu hillir undir að stórlega fari að fjölga ferðalögum fólks eftir því sem líður á árið. Ferðaþjónustan er mannaflsfrek og mun atvinnuleysi lækka hratt og örugglega eftir því sem ferðaþjónustan styrkist.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðstafa fjármunum í sköpun allt að 7.000 starfa í allt að hálft ár, með átaksverkefninu „hefjum störf“. Það er háleitt markmið að skapa störf fyrir þriðjung atvinnulausra í 6 mánuði. Það þýðir að atvinnurekendur geti fengið greiddan styrk með allt að 42.000 mánaðarlaunum í heildina ráði þeir einstaklinga af atvinnuleysisskrá eftir reglum verkefnisins.
Er ljóst að þetta muni koma mörgum atvinnurekendum vel sem þurfa að koma fyrirtækjum sínum úr hýði eftir áfallið og undirbúa sig fyrir eðlilegra ástand sem virðist í augsýn. Jafnframt ætti þetta að hjálpa þeim sem hafa haldið að sér höndum í ráðningum vegna óvissunnar sem ríkt hefur og geti fjölgað starfsfólki með minni áhættu. Fjárhæðir styrksins eru hækkaðar umtalsvert í þessu átaki, en geta fyrirtæki undir 70 manns, stofnanir og sveitarfélög fengið allt að rúmlega 527.000 krónur greiddar með hverjum starfsmanni og frjáls félagsamtök fá jafnframt 25% álag ofan á hvern starfsmann sem ráðinn er.
Á atvinnuleysisskrá er mikill mannauður úr öllum geirum atvinnulífsins sem hafa í allt of miklum mæli verið lengi án atvinnu fyrir gráglettni örlaganna. Hvernig getur einhver varist því að sú atvinnugrein sem starfað er við, stöðvist nánast yfir nótt? Tekjufall einstaklinga er oft mikið, en grunnbætur atvinnuleysisbóta eru rúmlega 307.000 kr.
Það hafa verið augljós sannindi í áraraðir að Vinnumálastofnun hefur engin betri verkfæri til að hjálpa þeim sem hafa verið lengi án atvinnu en að fá skammtímaráðningu í gegnum Ráðningastyrk. Nú má segja að þörfin fyrir slíkt úrræði hafi aldrei verið meiri og hvatinn fyrir atvinnurekendur aldrei verið meiri heldur.
Með því að ráða einstakling í gegnum verkefnið er ekki einungis verið að fá dýrmætan starfskraft í hálft ár fyrir lítinn tilkostnað, heldur hjálpar það atvinnulausum að finna kröftum sínum viðnám, ásamt því að hækka ráðstöfunartekjur nýrra starfsmanna. Afleiðing þessa verður að gera viðspyrnuna enn kraftmeiri, nú þegar hillir undir lok faraldursins. Það er sameiginlegt verkefni allra aðila vinnumarkaðarins að láta þetta tækifæri ekki renna sér úr greipum.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021