Árið 2008 dobluðu nokkrir vinir mig til að taka þátt í stofnun Samtaka um bíllausan lífsstíl. Ég var einstaklega hrifinn af hugmyndinni enda bjó ég í næstum tvö ár í Kaupmannahöfn þar sem ég ferðaðist einungis um á hjóli eða notaði almenningssamgöngur. Gallinn var bara að eins og flestir Íslendingar þá fór ég allt á bíl. Ég sló samt til og fór á Kaffi Sólón þar sem félagið var sett á laggirnar en venjur mínar breyttust því miður ekki.
Síðan þá hef ég velt því fyrir mér að selja Toyotuna og tileinka mér þennan bíllausa lífsstíl, sem mér líkaði svo vel við í Danmörku. Samt voru alltaf einhverjar afsakanir til staðar: það var of kalt, of langt eða ég hreinlega of latur. Ég gerði mér grein fyrir að þetta voru bara duttlungar í mér og best væri að skella sér í djúpu laugina en aldrei varð neitt úr því.
Að lokum tókst mér þó að láta á þetta reyna. Í haust hætti ég í vinnu og fór aftur í háskóla og ákvað að nú væri upplagt að leggja bílnum. Tekjurnar höfðu minnkað og bensín er ekki beint ódýrt, því hentaði einstaklega vel að hjóla eða ganga í stað þess að keyra. Ég gerðist að vísu ekki svo djarfur að selja bílinn og stalst til að nota hann kannski einu sinni í viku.
Í nóvember hjólaði ég næstum allt og ef þú sást alskeggjaðan mann, rauðþrútinn í framan af áreynslu, á bláu götuhjóli á Gömlu Hringbraut er aldrei að vita nema höfundur hafi verið þar á ferð. En hver er niðurstaðan? Er ég hraustari eftir alla hreyfinguna eða eyði ég ómældum mínútum í ferðalög og kem ávallt pungsveittur á áfangastað?
Kannski er best að byrja á því að tækla tímann. Í Danmörku lærði ég hagnýta stærðfræði og meistaraverkefnið mitt fjallaði um bestun rútuleiða. Ég er sem sagt með gráðu í því hvernig framkvæma skal verk á sem hagkvæmastan máta. Tímaeyðsla er því ekki í uppáhaldi og nokkuð sem ég reyni að forðast. Ég gerist meira að segja svo grófur að hlusta á hljóðbækur í ræktinni svo tíminn fari ekki til spillis. Það kom mér því á óvart hve fljótur maður er að hjóla flestar vegalengdir og í raun fljótari en á bíl, sérstaklega ef tekið er tillit til tímans sem fer í bílastæðaleit. Varla er því hægt að kvarta yfir lengd hjólatúra nema áfangastaðurinn sé í Hafnarfirði en þá tek ég yfirleitt bílinn.
Ég átti von á að pirringur í umferðinni myndi algerlega hverfa en hann hefur aukist ef eitthvað er og beinist nú gegn öllum, ekki bara öðrum bílum. Undarlegt hvernig maður getur látið aðra trufla sig ef þeir hindra för manns stundarkorn. Til dæmis er ekkert verra en lenda í hópi glórulausra ferðamanna, sem dreifa vel úr sér, í upphafi brekku og stöðva alla umferð um hjólastíginn eða gangstéttina. Þetta er sérstaklega slæmt þegar ég er búinn að vinna mér inn góðan hraðinn, sem verður að engu, og enda á að púla upp viðkomandi hæð í tuttugastaogfyrsta gír, enda alltof mikill halli til að skipta niður. Ekki að þetta eigi einungis við ferðamenn. Alls konar fólk getur verið tillitslaust; miðaldra karlamenn með snickersbita út á miðja kinn, tvítugar stúlkur með hljóðeinangrandi heyrnatól, fullorðnir ökumenn með hatta og unglingar á hólabrettum, enda getum við öll verið utan við okkur. Gallinn er bara í hvert sinn sem ég lendi í þessu sýður á mér. Ég leyfi samt aldrei reiðinni að brjótast út nema í einstaka fingursýningu en þá má fórnarlambið alls ekki verða vitni af því. Þó verður að hrósa ökumönnum sem eru mjög meðvitaðir um hljóðreiðafólk en maður er dálítið uggandi í garð þessara margra tonna málmferlíkja þegar maður er svona einn og óverndaður í umferðinni.
Ég verð að viðurkenna að helsti kosturinn við þessa breytingu er útiveran. Hún er ótrúlega vanmetin, sérstaklega núna þegar farið er að skyggja snemma. Áður fyrr sat maður fastur inni á skrifstofu yfir miðjan dag og átti sér ekki viðreisnar von. Nú hef ég aftur á móti tækifæri til þess að njóta þessara örfáu sólargeisla og er því allur léttari í skapinu, ekki það að ég sé einhver skaphundur, þvert á móti.
Þessi auka hreyfing hefur líka haft góð áhrif. Nú hef ég reynt að vera duglegur að stunda líkamsrækt og prófað ýmsar undarlegar aðferðir til að ná af mér nokkrum aukakílóum. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir að þessi lífstíll myndi auka brennslu en hve mikið kom mér á óvart. Síðan átakið hófst hef ég lítið mætt í ræktina og hugsa nánast ekkert um mataræðið en ólíkt áður þá virðist vigtin standa í stað. Að keyra púlsinn upp nokkrum sinnum á dag við létt átak virðist henta mér betur en að hanga klukkutímum saman í lyftingarsal. Ég reikna samt með að best sé að gera hvort tveggja.
Ég verð samt að segja að mér líður betur og er ánægður með tilraunina. Þrátt fyrir umferðapirringinn er ég afslappaðri. Það kann að hljóma undarlega en mér finnst eitthvað svo notalegt að vera ekki háður bílnum lengur. Þetta er því eitthvað sem hentar mér vel. Vissulega eru ekki allir á sama stað en suma langar ábyggilega að prófa. Ég myndi ráðleggja þeim að reyna að sleppa bílnum í einn mánuð og meta svo stöðuna. Ef til vill er veturinn ekki besti árstíminn til að fara út í svona tilraunir en hafið þetta endilega í huga þegar fer að vora. Hver veit, kannski er bíllaus lífstíll eitthvað sem gæti hentað þér.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015